Dómur Hæstaréttar í gengislánamálinu frá 15. febrúar síðastliðinn fjallar eingöngu um gildi fullnaðarkvittana og hefur ekkert fordæmisgildi varðandi tilvik þar sem lántaki hefur ekki yfir að ráða slíkri fullnaðarkvittun fyrir greiðslu eða ígildi hennar. Er þetta meðal niðurstaðna í álitsgerð sem LEX lögmannsstofa vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja.

Samkvæmt álitsgerðinni geta fjármálafyrirtæki ekki krafist mismunar á óverðtryggðum Seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun liggur fyrir, enda séu aðstæður sambærilegar og lýst er í dóminum. Sem dæmi um slíkt má nefna að lántaki verður að hafa verið í góðri trú að hann væri að reiða að fullu fram þær greiðslur sem honum bar. Skilmálar í láninu verða einnig að hafa verið staðlaðir og samdir einhliða af fjármálafyrirtækinu.

Gæti gilt um skilmálabreytt lán

Ólögmæt gengistryggð lán eiga því, samkvæmt álitsgerðinni, að bera óverðtryggða Seðlabankavexti ef ekki liggja fyrir fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta. Hafi lántaki verið í vanskilum með vaxtagreiðslur liggja ekki fyrir kvittanir vegna þeirra gjalddaga sem eru í vanskilum og er fjármálafyrirtæki því heimilt að krefjast óverðtryggðra Seðlabankavaxta afturvirkt vegna þeirra gjalddaga.

Hafi skilmálum lánasamnings verið breytt án þess að um vanskil hafi verið ræða og fullnaðarkvittanir liggja fyrir greiðslum eiga sömu sjónarmið við. Fjármálafyrirtæki er í slíkum tilvikum ekki heimilt að innheimta Seðlabankavexti afturvirkt. Þá telja lögmennirnir að þótt dómurinn eigi ekki við um lánasamninga lögaðila geti atvik verið sambærileg og í dómnum þegar um smærri lögaðila er að ræða. Stærð og staða lögaðila skipti máli við þetta mat.

Að lokum segir í álitsgerðinni að þeir lántakar sem greiddu samningsvexti af gengistryggðum höfuðstól, og hafi þannig greitt vexti á of háan höfuðstól, eigi almennt ekki endurkröfurétt á fjármálafyrirtækið.

Álitsgerðina unnu þau Aðalsteinn E. Jónasson, Karl Axelsson og Ásgerður Ragnarsdóttir og má lesa hana í heild sinni á vefsíðu SFF .