Landsbankabréfið svokallaða hefur verið lengi til umræðu en nú er beðið eftir úrskurði Seðlabankans um það hvort hægt verði að fá undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál sem gert er ráð fyrir í nýjum skilmálum skuldabréfsins. Í tilefni þess er vert að skoða forsögu málsins og hvað það er sem helst mælir fyrir og gegn því að lengt verði í Landsbankabréfinu.

Um hvað snýst málið?

Þegar nýi Landsbankinn var stofnaður í október 2008 var hann eini nýi bankinn sem tók yfir meiri eignir en skuldir frá búi gamla bankans. Í lok árs 2009 var samið um það að nýi Landsbankinn gæfi út 247 milljarða króna skuldabréf til gamla Landsbankans (LBI) fyrir mismuninum.

Upphaflega var skuldabréfið tvíþætt: Skuldabréf „A“ og svo skilyrt skuldabréf sem tengdist virðisaukningu hluta á lánasafni Landsbankans. Uppgjör lánasafnsins miðaðist við árslok 2012 og var endanlegt skuldabréf gefið út í apríl 2013 og samhliða útgáfu þess lét LBI af hendi alla eignarhluti sína í Landsbankanum. Eftir greiðslur Landsbankans af bréfinu frá útgáfu þess er staðan á skuld hans 238 milljarðar króna í erlendri mynt miðað við stöðu í lok desember 2013.

Í maí á þessu ári var undirritað samkomulag milli Landsbankans og LBI um breytingu á skilmálum skuldabréfanna. Stærsta breytingin í skilmálunum var fólgin í því að lokagjalddagi þeirra verði árið 2026 í stað 2018 og að endurgreiðslur verði á tveggja ára fresti og dreifist jafnt yfir lánstímann.

Málið strandar hins vegar á einu atriði. Slitastjórn LBI hefur gert kröfu um að undanþágur fáist í samræmi við lög um gjaldeyrismál í tengslum við lengingu á skuldabréfinu. Þær snúast í meginatriðum um það að hægt verði að greiða uppsafnaðan gjaldeyri út úr búinu í áföngum til forgangskröfuhafa. Fáist þær ekki verður ekki hægt að fresta gjalddeginum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .