„Það hefur eiginlega orðið að samkomulagi við innanríkisráðuneytið að bíða með að auglýsa þessar stöður þar til málin eru komin í einhverju magni frá sérstökum saksóknara,“ segir Símon Sigvaldason, héraðsdómari og formaður dómstólaráðs.

Innanríkisráðuneytið veitti tímabundna heimild við upphaf árs 2010 til þess að fjölga dómurum í tengslum við efnahagshrunið og flóð mála sem búist var við að myndu streyma frá embætti sérstaks saksóknara og mál tengd kröfuhöfum gömlu bankanna.

Heimildin hljóðaði upp á fimm nýjar stöður héraðsdómara, tvær stöður aðstoðarmanna og tvær stöður dómritara.

Símon segir að áætlanir um fjölda hrunmála inn í dómskerfið hafi ekki gengið eftir nema að hluta til. „Við höfum fengið málin tengd bönkunum og þau hafa verið ærin. Mál frá sérstökum saksóknara hafa hins vegar ekki enn borist," segir hann í samtali við netútgáfu Viðskiptablaðsins.

Eiga stöður uppi í erminni

„Forsendur hafa breyst að þessu leyti og því ætlum við að eiga þessar stöður uppi í erminni. Það hefur eiginlega orðið að samkomulagi við ráðuneytið að bíða með að auglýsa þessar stöður. Það er engin ástæða til að ráða í stöðurnar á meðan málin eru ekki komin. Við erum í þeirri stöðu að sjá hvernig þessu vindur fram hjá sérstökum saksóknara. Ef það kemur einhver góður málafjöldi frá honum þá má reikna með því að skipað verði í stöðurnar síðar á árinu,“ segir Símon.