Björgólfur Jóhannsson, formaður LÍÚ, gagnrýndi harðlega ákvörðun Seðlabankans um hækkun stýrivaxta úr 12% í 18% í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ sem nú stendur yfir.

„Að mínu viti er þetta röng ákvörðun miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag. Fasteignabólan, sem átt hefur stóran þátt í verðbólgunni undanfarin misseri, er sprungin,“ sagði Björgólfur.

„Eldsneytisverð, sem verið hefur mjög hátt á árinu, hefur lækkað mjög ört undanfarið. Fyrirsjáanlegur er mikill samdráttur í fjárfestingu og neyslu. Ég tel að við þessar aðstæður þurfi að horfa fram á veginn en ekki í baksýnisspegilinn.“

Björgólfur tók fram að eðlilega vöknuðu áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuni er verið að verja? Hvaða hagsmunum er fórnað? Hvaða ávinningur felst í því fyrir íslenskt samfélag að kippa fótunum undan  fyrirtækjum og heimilum og knýja þau jafnvel í þrot?

„Þetta er að mínu viti ekki trúverðug peningamálastefna heldur aðgerð, sem er til þess eins fallin að grafa undan hagkerfinu. Grafa undan fyrirtækjum og heimilum,“ sagði Björgólfur.