Nærri fjögur þúsund manns hafa skráð sig til þátttöku á landsfundum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem hefjast í dag og á morgun. Fundirnir marka tímamót í sögu flokkanna því nýir forystumenn taka þar við völdum af oddvitum síðustu ríkisstjórnar þeim Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Mikil spenna ríkir í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins en Bjarni Benediktsson þingmaður er talinn hafa sterkari stöðu. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja þó að ekki megi vanmeta Kristján Þór Júlíusson þingmann.

Þingmennirnir tveir Guðlaugur Þór Þórðarson og Illugi Gunnarsson sem tókust á um fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík styðja sitt hvorn frambjóðandann. Guðlaugur Þór er í stuðningsliði Kristjáns Þórs og Illugi styður Bjarna.

Fráfarandi formenn kveðja í dag og á morgun

Þá er tekist á um varaformannsstólinn á landsfundi Samfylkingarinnar. Staðan er talin nokkuð jöfn á milli þeirra Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa og Árna Páls Árnasonar þingmanns. Fleiri veðja þó á sigur Dags en Árna Páls.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja erfitt að greina ákveðna flokkadrætti í baráttunni. Eflaust eigi margir eftir að gera upp hug sinn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst síðdegis í dag en nærri tvö þúsund manns hafa rétt til setu á fundinum. Geir H. Haarde, fráfarandi formaður, flytur upphafsræðu í dag.

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst á morgun og um sautján hundruð manns hafa skráð sig til þátttöku á fundinum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi formaður, flytur opnunnarræðu.

Jóhanna Sigurðardóttir er ein í kjöri til formanns Samfylkingarinnar. Ekkert mótframboð hefur heldur borist gegn Þorgerði K. Gunnarsdóttur í varaformannsstól Sjálfstæðisflokksins.

Kristján Þór Júlíusson formannsframbjóðandi útilokar ekki í samtali við Viðskiptablaðið í dag að hann bjóði sig fram til varaformennsku tapi hann formannsslagnum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .