Yfirtaka Baugs Group á Big Food Group tók gildi á föstudaginn og hefur Baugur ásamt meðfjárfestum sínum nú tekið formlega við rekstri félagsins. Jafnframt hafa hlutabréf Big Food Group verið afskráð hjá London Stock Exchange.

Eins og áður hefur komið fram verður félaginu skipt upp í þrjár rekstrareiningar, heildsöluhlutann Booker, smásöluhlutann Iceland og fasteignafélag sem tekur yfir allar fasteignir félaganna. Uppskipting félagsins er flókið ferli þar sem um er að ræða félag með 600 milljarða króna veltu, 30.000 starfsmenn og 950 starfsstöðvar í Bretlandi.

Jafnframt munu nýir eigendur endurskoða stefnumörkun félaganna til að ákvarða framtíðarstefnu þeirra og er þess vænst að þeirri vinnu verði lokið á næstu 6 mánuðum.

Malcolm Walker stofnandi Iceland tekur formlega við störfum sem framkvæmdastjóri félagsins í dag. Pálmi Haraldsson sem stóð að yfirtökutilboðinu ásamt Baugi verður stjórnarformaður Iceland.

Bill Grimsey forstjóri Big Food Group lætur af störfum hjá félaginu í lok mánaðarins og mun Hans Kristian Hustad sinna störfum stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Booker þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn síðar á árinu.

"Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur og meðfjárfesta okkar. Við teljum Booker og Iceland eiga góða framtíð fyrir sér sem sjálfstæð félög. Við munum einfalda allan rekstur félaganna, minnka yfirbyggingu og einbeita okkur að því að sinna þörfum viðskiptavina," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs Group í frétt á heimasíðu félagsins.