Formúlu 1 kappaksturinn er sú íþróttagrein sem skapar mestar tekjur allra íþróttagreina í heiminum. Á síðasta ári skapaði hver Formúlu 1 keppni að meðaltali 217 milljónir dollara. Keppnirnir voru 18 talsins og voru heildartekjur því rúmir 3,9 milljarðar dollara í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu frá Deloitte.

Hver leikur í bandarísku ruðningsdeildinni, NFL, skapaði að jafnaði 24 milljónir dollara, hver leikur í ensku úrvalsdeildinni 8 milljónir dollara og hver leikur í bandarísku hafnaboltadeildinni MLB skapaði 2 milljónir dollara í tekjur.

Einungis NFL- og MLB-deildirnar sköpuðu hærri heildartekjur en Formúla 1 sé litið yfir allt keppnistímabilið. Heildartekjur NFL urðu 6,5 milljarðar dollara (árið 2006) og MLB 5,1 milljarður dollara, líka árið 2006. En til þess verður að líta að mun fleiri viðburðir eru í deildarkeppnum þessara íþróttagreina en Formúla 1. Heildartekjurnar yfir keppnistímabilið 2006-2007 í ensku úrvalsdeildinni urðu 3 milljarðar dollara.

Tekjur af Formúlu 1 verða til vegna sjónvarpsútsendinga, auglýsingatekna fyrirtækja í tengslum við keppnirnar, auglýsingatekna liðanna og framlaga frá samstarfsaðilum og eigendum þeirra, aðgöngumiðasölu og sérgreindra samninga bakhjarla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .