Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, hafði í byrjun árs 2008 gert samning við eiganda hins fræga Williamsliðs í Formúlu 1 kappaksturskeppninni um að fá að kaupa 10% hlut í lok desember sama ár. Það var háð því skilyrði að Jón Ásgeir yrði einn af aðalstyrktaraðilum félagsins í gegnum félög undir hans stjórn. Það gekk eftir og voru Hamleys og fleiri fyrirtæki Baugs í Bretlandi bakhjarlar Williamsliðsins.

Í viðtali við vefsetrið autosport.com í mars 2008 sagði Frank Williams að helmingur styrktarsamningsins væri kominn til framkvæmda og seinni helmingurinn kæmi til framkvæmda seinna á tímabilinu. Hins vegar óskaði hann eftir bankaábyrgð á greiðslunni á miðju ári. Þá fór Jón Ásgeir til Glitnis og bað bankann um ábyrgð. Þá var verið að minnka alla áhættu á Baug og önnur félög Jóns Ásgeirs. Ábyrgðin var samt veitt en það fór hljótt í bankanum og komst ekki upp fyrr en Baugur fór í þrot.

Þegar Jón Ásgeir gat ekki staðið við samninginn í desember 2008, þegar allt íslenskt efnahagslíf stóð í björtu báli og slökkvistarf í Baugi stóð sem hæst, reyndi á ábyrgð Glitnis. Þannig er til komin þessi krafa Williamsliðsins á bankann, sem birt var í skrá yfir kröfuhafana. Krafan sem Williams gerir í Glitni hljóðar upp á 10,75 milljóir punda eða rúma tvo milljarða íslenskra króna.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .