Fyrsta heildstæða lagaumgjörðin um skortsölu tók gildi nú um mánaðamótin. Með henni er skortsölureglugerð ESB gefið gildi með lögum um skortsölu og skuldatryggingu. Páll Harðarson forstjóri Kauphallar Íslands segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að skortsala hafi að einhverju leyti verið meira feimnismál hérlendis en erlendis. Víðast hvar sé litið á skortsölu sem leið til að fyrirbyggja verðbólu þannig að svartsýnir fjárfestar hafi jafna möguleika á við bjartsýna til að tjá skoðanir sínar markaði.

Segir Páll að neikvætt viðhorf til skortsölu skýrist líklega fyrst og fremst af takmarkaðri þekkingu hér samanborið við eldri markaði. Nefnir hann sem dæmi að í Bretlandi hefur fjármálaeftirlitið staðið vörð um þennan möguleika á þeim grundvelli að hann feli í sér fjárfestavernd.

Páll segir einnig að umfang skortsölu hér á landi sé ekki mikið og að reglugerðin muni út af fyrir sig ekki auka möguleika á skortsölu. „Það sem vantar er að fleiri aðilar láni verðbréf enda er það forsenda skortsölu. Erlendis eru þetta oft lífeyrissjóðir sem lána en hérlendis er þeim ekki heimilt að lána verðbréf," segir Páll og bætir því við að Kauphöllin meti það svo að rýmka þurfi þessar heimildir til að skapa forsendur fyrir virkari möguleikum á skortsölu.