Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vill hækka álögur á olíu og bensín og ryðja þannig veginn fyrir notkun annarra orkugjafa í Danmörku.

„Þegnar allra landa kvarta undan háu bensínverði um þessar mundir. Lausnin á því er ekki að lækka verðið, heldur þvert á móti að hækka það og gera okkur þar með minna háð olíu og bensíni,“ segir Anders í viðtali við New York Times.

„Við hyggjumst leggja fram frumvarp um breytingar á skattalögum þar sem skattur á orku verður hækkaður og tekjuaukningin sem ríkissjóður fær með því verður notuð til að lækka tekjuskatt. Þannig sköpum við hvata til að vinna og einnig til að fara sparlega með orku og finna lausnir sem byggjast á notkun endurnýjanlegrar orku.“

Þetta kemur fram á vef Børsen.