„Við í Samfylkingunni höfum mengast um of af þessari hugmyndafræði – svokölluðum Blair-isma - og við höfum gengið allt of langt í þá átt að tala samfélagsþjónustuna niður. Ég tek Íbúðalánasjóð sem dæmi í þessum efnum – hvar værum við stödd í dag, ef Íbúðalánasjóðs hefði ekki notið við og einkaaðilar hefðu tekið allan markaðinn yfir eins og íhaldið hefur ítrekað reynt," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar um helgina.

Þegar Jóhanna var félagsmálaráðherra í júní 2008 beitti hú sér fyrir því sérstaklega að Íbúðalánasjóður (ÍLS) hefði víðtækari heimildir til útlána. Þá var íbúðaverð að lækka vegna minni eftirspurnar og bankarnir orðnir tregir til að lána. Útlán ÍLS jukust á þessum tíma, margir réðust í íbúðakaup, sérstaklega á litlum fasteignum, rétt fyrir hrun. Margir af þessum lántakendum eru í vanda í dag.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og meðlimur peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sagði á ráðstefnu í þessum mánuði, sem greint var frá í Viðskiptablaðinu 16. júní, að þrjár aðgerðir væru mikilvægar áður en fjármagnshöft yrðu afnumin.

Leggja þyrfti niður Ibúðalánasjóð

Gylfi sagði að leggja þyrfti niður Íbúðalánasjóð í núverandi mynd. Stýrivextir Seðlabankans hefðu ekki bitið á útlánavexti íbúðalána og gætu þannig ekki náð takmarki sínu, sem er að stýra eftirspurn. Vegna sjálfstæðis Íbúðalánasjóðs hefðu stýrivextir og útlánavextir ekki slegið í neinum takti á síðustu árum.

Í stað Íbúðalánasjóðs á að koma á legg opinberum sjóði að mati Gylfa sem hefur það hlutverk að aðstoða láglaunafólk og þá sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign.