Í tilefni af orðum Geirs H. Haarde (GHH) á Alþingi í dag, um að forsætisráðherra hefði sagt ósatt um áskilinn trúnað Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) á athugasemdum sem AGS sendi stjórnvöldum fyrr í þessum mánuði hefur forsætisráðuneytið ákveðið að birta tölvupóstsamskipti milli ráðuneytisins og AGS vegna umræddra athugasemda.

Í tilkynning ráðuneytisins kemur fram að af lestri þessara skjala ætti að vera ljóst að allt sem forsætisráðherra hefur sagt um málið og þann trúnað sem AGS áskildi um upphaflegu athugasemdirnar er sannleikanum samkvæmt.

„Fullyrðingar GHH um annað eru því ekki réttar," segir í tilkynningu ráðuneytisins sem Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra sendir út.