Fyrrverandi forstjórum bandarísku íbúðalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac, þeim Daniel Mudd og Richard Syron, hefur verið stefnt fyrir dóm fyrir að hafa leynt stöðu sjóðanna í svokölluðum undirmálslánum fyrir bankahrunið 2008.

Bandaríska fjármálaeftirlitið, SEC, hefur höfðað mál gegn þeim en lýsti því jafnframt yfir að það myndi ekki höfða mál gegn sjóðunum sjálfum.

Á árunum 2007 og 2008 sögðu forstjórarnir að áhætta sjóðanna tveggja vegna undirmálslána væri á bilinu 2-6 milljarðar dala, en í rauninni nam hún 244 milljörðum, að því er segir í stefnunni. Þeir hafi því gefið eftirlitsaðilum og markaðsaðilum kolranga mynd af stöðunni og þar með leynt áhættunni sem af undirmálslánunum stafaði.