Bílaframleiðandinn Honda Motor Co. greindi í dag frá því að Takahiro Hachigo muni taka við af Takanobu Ito sem forstjóri félagsins. Verða forstjóraskiptin í júní á þessu ári, en Ito mun áfram verða fyrirtækinu innan handar sem ráðgjafi.

Í frétt Reuters eru forstjóraskiptin sett í samhengi við fjölda innkallana, sem hafi skaðað ímynd fyrirtækisins út á við. Í október var ákveðið að lækka laun Ito og annarra hátt settra starfsmanna Honda eftir senda hafði þurft út fimmtu innköllunina á einu ári vegna tvinnbílsins Fit. Hefur Honda nú lækkað afkomuspá sína vegna þess að leggja þurfti til hluðar hundruð milljóna dala til að mæta kostnaði við innkallanirnar.

Takahiro Hachigo er fimmtíu og fimm ára gamall verkfræðingur sem unnið hefur hjá Honda frá árinu 1982. Hann hefur starfað við rannsóknir og þróun, innkaup og framleiðslu og hefur starfað í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kína, þar sem hann er nú yfirmaður rannsóknar og þróunar.