Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, sendi í gær starfsmönnum fyrirtækisins bréf til að útskýra afstöðu fyrirtækisins í kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Nú þegar hafa starfsmenn farið í yfirvinnubann og allsherjarverkfall er áætlað þann 1. september. Fjölmiðlar fengu bréfið einnig sent, en til stóð að birta það á vef fyrirtækisins eftir helgi.

Aðdragandinn að núverandi stöðu er sá, að fyrr í sumar hafnaði samninganefnd starfsmanna stuttum kjarasamningi, þrátt fyrir að umtalsverð launahækkun væri í boði, eins og við greindum skilmerkilega frá í frétt á innraneti ISAL þann 11. júní. Mun tilboðinu meðal annars hafa verið hafnað vegna kröfu fyrirtækisins um að mega bjóða fóðrun kera út á almennum markaði.

Í bréfinu tekur Rannveig fram að fyrirtækið greiði hærri laun en gengur og gerist fyrir sambærileg störf á Íslandi og að laun starfsmanna hafi hækkað meira frá hruni heldur en sem nemur almennum launahækkunum í landinu.

Þá hafi fyrirtækið tapað sjö milljörðum króna árin 2012 og 2013 og að hagnaður fyrirtækisins í fyrra, sem var um 400 milljónir króna fyrir skatt, jafngilti aðeins 0,3 prósent arðsemi eigin fjár.

Bent er á að heimsmarkaðsverð á áli hafi lækkað mikið sem og markaðsuppbætur. Eftirspurn sé langt undir áætlunum og að samanlögð áhrif þessa á sölutekjur ISAL (Rio Tinto Alcan á Íslandi) séu harkaleg.

„Allt ofangreint felur í sér sterk og málefnaleg rök fyrir því að ISAL ætti að þessu sinni að bjóða kauphækkanir sem taka mið af fjárhagsstöðu fyrirtækisins og stöðu áliðnaðarins,“ segir Rannveig í bréfinu.

„En þrátt fyrir að ISAL greiði nú þegar hærri laun en gengur og gerist, og staða á mörkuðum sé slæm, þá erum við enn til viðræðu um áþekkar launahækkanir og aðrir á Íslandi hafa samið um að undanförnu. Þetta teljum við að sé vel boðið.“

Bréfið má lesa í heild sinni með því að smella hér.