Viðskiptaþátturinn hefst að vanda klukkan 16 í dag á Útvarpi Sögu FM 99,4 og hann verður fjölbreyttur. Flugleiðir komu mörgum á óvart á föstudaginn þegar félagið tilkynnti um kaup á rúmlega 8% hlut í breska lággjaldaflugfélaginu EasyJet - síðan hafa Flugleiðir bætt við hlut sinn og eiga nú rúmlega 10% hlut í EasyJet sem telst vera annað stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. En hvert eru Flugleiðir að fara - það átta sig ekki allir á því - rætt verður við Sigurð Helgason, forstjóra félagsins, í þættinum.

Úr fluginu höldum við síðan yfir í verslun með lífrænt ræktaðar vörur - Maður lifandi - heitir slík verslun í Borgartúni, en þar er Hjördís Ásberg sem á og rekur verslunina. Maður lifandi byggir á sérstakri hugmyndafræði sem við ætlum að kynna okkur en þar er heilbrigði og heilsa í fyrirrúmi.

Í síðari hluta þáttarins ætlum við að kynna okkur 9 mánaða uppgjör Össurar, fjármálastjóri fyrirtækisins Hjörleifur Pálsson, ætlar að renna yfir helstu þætti uppgjörsins með okkur og segja okkur frá því hvert Össur stefnir, en með þessu uppgjöri þykir fyrirtækið hafa stimplað sig inn af fullum krafti eftir erfitt ár í fyrra.

Við ætlum einnig að heyra í forstöðumanni Greiningardeildar Landsbankans Eddu Rós Karlsdóttur og fá að heyra hvernig hún metur stöðuna eftir daginn á markaðnum og botninn í þáttinn sláum við með því að ræða við Sigrúnu Völu Valgeirsdóttur sem rekur Feng Shui-húsið á Frakkarstíg.