Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, útlokar ekki að aukið verði við hlutafé fyrirtækisins. Það kemur fram þegar hann er aðspurður í viðtali við Bloomberg fréttastofuna. Skráning flugfélagsins í Kauphöllina í gær var tilefnið að viðtalinu. Þar segir hann einnig að fyrirtækið hafi vaxið mikið að undanförnu.

Jón Karl nefnir að Icelandair Group geti bæði stækkað hratt sem og dregið saman seglin þegar þurfa þykir, allt eftir markaðsaðstæðum. Segir hann það mjög mikilvægt og nefnir að svo mikið sé víst að markaðurinn muni breytast og lykillinn að góðu gengi sé að geta aðlagast breyttum aðstæðum.