Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, var með rétt rúma 15,1 milljón króna í laun, hlunnindi og þóknanir í fyrra. Þetta gera rúmar 1,2 milljónir króna á mánuði. Ári fyrr fékk Helgi í vasann tæpar 13 milljónir króna og nemur hækkunin á milli ára því 2,8 milljónum króna. Hlutabréf fasteignafélagsins voru skráð í Kauphöllina í morgun. Þetta var fyrsta Kauphallarskráningin á árinu og sú fjórða á norrænum hlutabréfamörkuðum.

Forstjóri Regins var lægstlaunaðasti forstjóri þeirra fyrirtækja sem mynda Úrvalsvísitöluna samkvæmt samantekt á upplýsingum sem finna má í ársreikningum fyrirtækjanna.

Jón í Össuri með meira en tífalt hærri laun

Launakóngur Kauphallarfélaganna í fyrra var Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Heildarlaun hans á árinu námu 180 milljónum króna, sem jafngilda því að hann hafi haft 15 milljónir króna í laun á mánuði.

Almennt voru forstjórar fyrirtækja sem mynda Úrvalsvísitöluna með 5,2 til 5,6 milljónir í laun á mánuði. Undan þessu er þó skilinn Björgólfur Jóhannsson en hann kemur næstur á undan Helga af þeim forstjórum fyrirtækja sem mynda Úrvalsvísitöluna sem lægstir höfðu launin í fyrra.

Laun Björgólfs voru engu að síður talsvert hærri, 41,7 milljónir á mánuði, sem jafngilda rétt um 3,5 milljónum króna á mánuði.