Michael O'Leary, forstjóri lággjaldaflugfélagsins Ryanair, er með 20-falt hærri meðallaun en aðrir starfsmenn. Á hinn bóginn vinnur hann 50-falt meira. Þetta er mat forstjórans sjálfs. Hann var með 1,2 milljónir evra í laun á síðasta ári, jafnvirði 190 milljóna íslenskra króna. Það gera um 15,8 milljónir króna í mánaðarlaun. Til samanburðar var Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, með 41,7 milljónir króna í laun í fyrra, tæpar 3,5 milljónir króna á mánuði.

Forstjórinn, sem er með þeim litríkari í bransanum, vælir yfir launum sínum í samtali við netmiðilinn Management Today og bendir á að kollegar sínir hjá öðrum flugfélögum, s.s. hjá Aer Lingus, sem Ryanair á stóran hluta í, sé með hærri laun.

„Ég er með lægstu launin og með þeim minnst metnu forstjórum flugfélaga í Evrópu,“ segir hann.

O'Leary fer víða í viðtalinu. Hann segir m.a. ferðalög og frí algjöra tímaeyðslu. Hann neyðist hins vegar til að fara í frí þar sem konan og börn þeirra fjögur krefjist þess að þau fari eitthvað á hverju ári. Hann segist botna lítið í því. Fjölskyldan fái nóg af honum í hálfsmánaðarfríi.

Hann flýgur í fríið með Ryanair. „Ég borga formúgu í yfirvigt,“ segir hann.