Í fréttatilkynningu frá Högum vegna sáttar sem félagið hefur gert við Samkeppniseftirlitið segir að fyrirkomulagið sem Samkeppniseftirlitið setti út á, og varðar lög, hafi tíðkast í langan tíma, a.m.k. frá sjöunda áratug síðustu aldar. Það sé niðurstaða stjórnar Haga að ganga til sátta við eftirlitið og gera breytingar á fyrirkomulaginu.

„Um er að ræða vinnufyrirkomulag sem verið hefur í gildi milli smásala og kjötbirgja í áratugi. Kjötframleiðendum ber skylda til að merkja vörur sínar með pökkunardegi, síðasta söludegi og þyngd.  Samhliða þessum merkingum hafa framleiðendur merkt kjötvörur, ýmist með leiðbeinandi smásöluverði eða smásöluverði, sem smásali hefur ákveðið.

Í þessu hefur falist mikið hagræði fyrir báða aðila og þægindi fyrir neytendur.  Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar gert athugasemd við þessa aðferðarfræði sem tíðkast hefur og telur hana brjóta í bága við 10. grein samkeppnislaga, þar sem hún feli í sér lóðrétt samráð um ákvörðun smásöluverðs,“ segir í tilkynningu frá stjórn Haga.

Fyrirkomulagi breytt í skrefum

Auk 270 milljóna króna sektar sem greiðist til ríkissjóðs felur samkomulagið í sér að núverandi fyrirkomulaginu verður breytt í skrefum. Breytingum á að ljúka 1. júní 2011. „Neytendur munu því taka eftir breytingum á því hvernig kjöt verður verðmerkt í verslunum en Hagar munu leggja áherslu á að valda viðskiptavinum sínum sem minnstum óþægindum,“ segir í tilkynningu.

„Jafnframt er það von Haga að breytingar þessar taki til allra aðila á markaði því ljóst er að samskipti Haga við kjötbirgja hafa verið með sama hætti og tíðkast í samskiptum annarra smásala við kjötbirgja. Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um samskipti smásala og birgja þannig að í samskiptum þeirra, t.d. varðandi leiðbeinandi smásöluverð, sé ekki fólgin hætta á brotum á samkeppnislögum. Það skal ítrekað að í þessu máli var enginn ásetningur fyrir hendi af hálfu Haga og umrædd samskipti hafa ekki leitt til hækkunar á vöruverði fyrir neytendur.“

Stjórn Haga hefur ákveðið að óska eftir frekari leiðbeiningum frá Samkeppniseftirlitinu varðandi aðrar vörur en kjötvörur. Það tíðkast víða að framleiðendur formerki vörur með leiðbeinandi smásöluverði, má þar nefna framleiðendur osta og útgefendur tímarita og dagblaða.