Dr. Svafa Grönfeldt sagði samkeppnishæfni og lífsgæði þessa lands aukast einungis með öflugri uppbyggingu menntakerfisins í ræðu sinni við útskrift nemenda við Háskólann í Reykjavík í gær.

Hún sagði aukna þekkingu örva nýsköpun. „Með aukinni þekkingu finnum við frekar nýjar lausnir á gömlum vandamálum og aukin þekking skapar virðisauka með framþróun atvinnulífs,” sagði Svafa.

Svafa sagði fjölbreytilegt rekstrarform og frelsi til athafna vera lykilinn að framþróun. „Með frelsinu er sem þungu fargi sé lyft og fersku lofti hleypt inn. Aukið frelsi leysir úr læðingi orku og nýsköpun sem hefur gefið okkur nýja sýn og ný tækifæri. Eitt skýrasta dæmið um þetta eru einkareknir háskólar og aukin samkeppni á háskólastigi,” sagði Svafa.

Svafa sagði val nemenda gera skólana betri. „Við höfum frelsi til að skapa og nýtum okkur það til hagsbóta fyrir nemendur okkar, atvinnulífið og samfélagið. Við hikum ekki við að fara ótroðnar slóðir og við leitum markvisst nýrra leiða til að auka færni okkar, tryggja gæði rannsókna og kennslu."

Hún sagði samkeppni á háskólastigi kalla á stöðuga framþróun kennsluaðferða og rannsóknastarfa auk þess að kalla á betri kennara og betri vísindamenn.

Þá kom fram í ræðu Svöfu að einkareknu  háskólarnir mældust nú með mest gæði kennslu að mati háskólanemenda hér á landi og sagði hún Háskólann í Reykjavík þar í forystu samkvæmt nýlegri könnun Ríkisendurskoðunar.

Svafa sagði árið sem nú er nýliðið vera gott ár fyrir Háskólann í Reykjavík. „Metaðsókn var að skólanum. HR-ingar urðu heimsmeistarar í gerfigreind þar sem lið skólans sigraði marga af bestu háskólum í heimi. Tímaritið Science tilnefndi niðurstöður rannsóknarhóps frá HR sem eina af top 10 merkustu vísindaafrekum ársins. Rannsóknarvirkni skólans hefur tvöfaldast á árinu. Hópur sérfræðinga frá MIT háskólanum í Boston, sem er einn fremsti tækniháskóli heims, vinna nú að mótun meistaranáms í verk- og tæknifræði við HR og fjöldi námsbrauta og námskeiða hefur aldrei verið meiri.”

Þá kom fram í ræðu Svöfu að framsýnir einstaklingar og fyrirtæki hafi rennt traustum stoðum undir markvissa uppbyggingu mannauðs skólans með stofnun Þróunarsjóðs HR. Þá var fysta skóflutungan tekin að nýbyggingu skólans sem Svafa segir að verði ein best búna háskólabygging í Evrópu.

Svafa sagði menntun vera aðgöngumiðann að 21. öldinni. „Þetta skilja íslensk stjórnvöld sem hafa af mikilli víðsýni skapað grundvöll fyrir fjölbreytta flóru háskóla, veitt þeim svigrúm til nýsköpunar í kennslu en jafnframt hlúð að því sem fyrir er með það að markmiði að undirbúa framtíðarmannauð þjóðarinnar sem best fyrir áskoranir framtíðarinnar,” sagði Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.