*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 14. febrúar 2021 17:01

Fossar vilja ógilda sekt frá FME

Fossar telja túlkun FME ekki skýra og standist ekki meginregluna um fyrirsjáanleika refsiheimilda.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Fossar markaðir hf. hafa stefnt íslenska ríkinu og Seðlabanka Íslands til ógildingar sektar sem Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) gerði félaginu í fyrra fyrir brot gegn laga- og reglugerðarákvæðum sem gilda um kaupauka. Annað mála af svipaðri rót, en þó eigi samstofna, bíður niðurstöðu Hæstaréttar um áfrýjunarleyfi.

Undir lok árs 2015 var hlutafé Fossa skipt upp í A- og B-flokk. Síðari bréfin eru án atkvæðisréttar, framsal þeirra óheimilt án samþykkis stjórnar og þau veita ekki forgangsrétt að öðrum bréfum í flokknum. Þau veita hins vegar rétt til helmings arðgreiðslna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. B-hlutirnir eru síðan háðir innlausn, samþykki stjórn félagsins slíkt, og skulu þeir innleystir á nafnvirði.

B-bréfin hafa aðallega verið í eigu félaga starfsmanna að undanskildum hluta sem var í eigu fyrrverandi stjórnarmanns. Viðskipti með þau hafa farið fram á nafnverði og hafa hluthafar þeirra greitt tæplega 29 milljónir króna fyrir hluti í þeim. Arðgreiðslur til eigenda bréfanna hafa numið tæplega 345 milljónum króna.

Síðastliðið sumar lagði FME 10,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á Fossa en eftirlitið taldi að félagið hefði með þessu klætt kaupaukagreiðslur, sem umbunuðu starfsmönnum fyrir árangur í rekstri, í búning arðgreiðslna. Benti FME á að „ólíklegt [væri] að öðrum en þeim sem geta haft áhrif á afkomu félagsins verði boðið að eignast B-hluti“ og að arðgreiðslur til B-hluthafa hafi numið tæpum helmingi af hagnaði þótt hlutfall flokksins hafi verið á bilinu 7,5-23,6% af heildarhlutafé. Því til viðbótar hafi stjórn félagsins ávallt tekið ákvörðun um innlausn á hlutum eftir að starfsmaður lét af störfum, þótt slíkt hafi ekki verið skylt, og að fjárhagsleg áhætta af eignarhaldi bréfanna sé almennt minni en gengur og gerist.

Telja mat FME afar huglægt

Athugun FME hófst árið 2017, og náði til ársins á undan, en var sett á ís vorið 2018 meðan dóms var beðið í máli Arctica Finance gegn íslenska ríkinu, sem talinn var geta veitt fordæmisgildi. Þegar dómur lá fyrir vorið 2019 hélt málsmeðferð áfram. Af sömu ástæðu var félaginu ekki gerð sekt vegna arðgreiðslna árin 2018-19. Félagið var aftur á móti sektað fyrir arðgreiðslur áranna 2016-17. Hluti sektarinnar var til kominn vegna arðgreiðslu til félags í eigu stjórnarmanns annars vegar og hins vegar arðgreiðslu til félags regluvarðar.

Í ákvörðun FME er tekið fram að á síðasta ári hafi samþykktum Fossa verið breytt og þær falið í sér talsverðar breytingar á B-hlutunum. Ekki þótti því tilefni til að gera sérstaka úrbótakröfu í málinu.

Blæbrigðamunur milli Arctica og Fossa

Annað mál sem varðar meintar kaupaukagreiðslur bíður nú niðurstöðu Hæstaréttar um hvort leyfi fáist fyrir því að áfrýja dómi Landsréttar til réttarins. Þar er á ferð ógildingarmál Arctica Finance vegna ákvörðunar FME um sekt vegna ólögmætra kaupaukagreiðslna. Sá munur er á málunum að hjá Arctica var bréfunum skipt upp í A-, B-, C- og D-flokka en starfsmenn fengu mismunandi bréf eftir því í hvaða deild þeir störfuðu. Samanlagt hlutafé flokkanna var 200 þúsund krónur. Sekt FME nam upphaflega 72 milljónum króna en var lækkuð í 24 milljónir króna í héraði þar sem reglur FME um kaupaukakerfi, frá árinu 2011, hefðu ekki öðlast lagastoð fyrr en árið 2016. Þótti því ekki unnt að leggja sekt á fyrir árin 2012-15. Dómur héraðsdóms var staðfestur í Landsrétti í byrjun desember 2020. Að mati Fossa á niðurstaða í því máli ekki við hér enda aðeins um B-bréf að ræða hjá þeim og markaðsverð greitt fyrir hlutina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: FME Fossar kaupaukar