Mér hefur lengi fundist Storytel vera mjög spennandi fyrirtæki, enda hefur það ekki farið framhjá manni hvernig það hefur vaxið bæði hér heima og um allan heim. Svo nota ég þjónustuna mikið sjálfur, enda geta hljóðbækur svalað þörf okkar sem lengi hafa viljað lesa meira en ekki gefið okkur tíma til þess,“ segir Birkir Ágústsson, nýr markaðsstjóri Storytel á Íslandi.

„Ég hef verið að leita eftir nýrri áskorun og eftir að ég hitti Stefán Hjörleifsson, landstjóra fyrirtækisins á Íslandi, var ég algerlega seldur á það að þetta væri starfið fyrir mig. Ég hef í gegnum starfsferil minn hingað til unnið að því að selja áskrift af afþreyingarefni í gegnum sjónvarp en núna eru það bækurnar sem taka við.“

Leið Birkis inn í markaðsgeirann var að starfa í þjónustuveri Stöðvar 2 meðfram háskólanámi í viðskiptafræði. „Síðan fæ ég afleysingu inn í markaðsdeild Stöðvar 2 þar sem markaðsstjórinn, Jóhannes Egilsson, segir við mig að ef ég klára ritgerðina skuli hann fastráða mig. Ég held að hann hafi nú aðallega verið að ýta við mér að útskrifast og er ég honum mjög þakklátur fyrir það,“ segir Birkir.

„Hjá Stöð 2 tók ég svo við að stýra kynningarmálum með frábæru fólki, sem ég hef meira og minna verið samferða síðan, við að hanna markaðs- og auglýsingaefni. Ég hef alltaf verið mikill íþróttaáhugamaður og fá að vinna í kringum enska boltann var alger draumur. Það hjálpar að hafa áhuga á vörunni eins og á við alla hjá Símanum enda ástríðan mjög smitandi,“ segir Birkir.

Nánar er rætt við Birki í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .