Finnski hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað mest af norrænu hlutabréfamörkuðum fyrir árið 2007, á meðan sá sænski hefur lækkað mest, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Þrír norrænir markaðir hafa hækkað á árinu en tveir lækkað. Greiningardeildin segir að finnski markaðurinn hefur hækkað um 16,7% það sem af er ári en hæst fór hækkun ársins í 31,5% í lok október. Næst á eftir finnska markaðnum kemur norska vísitalan með um 8,6% hækkun en danska vísitalan situr í þriðja sæti með um 4,2% hækkun á árinu. Í neðri hluta töflunnar liggur íslenska vísitalan með um 0,7% lækkun. Sænska vísitalan rekur svo lestina en það sem af er ári hefur hún lækkað um 7,22% en árshækkun vísitölunnar fór hæst í 14,4%.

“Íslenska vísitalan náði hæstu hæðum um miðjan júlí þegar hún náði 9.016 stigum en það samsvaraði um 40,7% hækkun frá áramótum. Vísitalan hefur síðan átt erfitt uppdráttar því hún lækkaði um 3,9% á þriðja ársfjórðungi og um 20,3% á fjórða ársfjórðungi. Fjórði ársfjórðungur ársins er því versti ársfjórðungur í sögu innlenda hlutabréfamarkaðarins. Frá því úrvalsvísitalan náði hæsta gildi sínu hefur hún lækkað um 30%. Til samanburðar þá hafa hinar norrænu vísitölurnar lækkað um 9-19% frá hæsta gildi þessa árs,” segir greiningardeildin.