Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands greindi í dag frá björgunarpakka frönsku ríkisstjórnarinnar til handa efnahagskerfi landsins.

Franska ríkið mun veita 26 milljarða evra innspýtingu inn í hagkerfið á næstu mánuðum samkvæmt planinu.

Þar er meðal annars gert ráð fyrir 1 milljarða evra láni til bílaframleiðanda og 5 milljarða láni til einkaaðila og nýsköpunarfyrirtækja.

Fyrir utan 26 milljarða evra beina innspýtingu mun franska ríkið einnig veita fyrirtækjum skattaafslætti á næsta ári sem áætlað er að kost um 11,5 milljarð evra.

Um að ræða um það bil 1,3% af landsframleiðslu Frakklands en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar er í framhaldinu gert ráð fyrir 0,9% hagvexti á næsta ári.

Þá munu skuldir franska ríkissjóðsins aukast og vera 3,9% af landsframleiðslu en þegar hafði verið gert ráð fyrir 3,1%.

Sarkozy forseti lagði engu að síður áherslu á að enn þyrfti að endurskipuleggja hagkerfið upp á nýtt og þannig væri margt sem þyrfti að endurskoða. Hann sagði að björgunarpakki ríkisstjórnarinnar fæli ekki í sér að óábyrgir aðilar gætu ennþá starfað með sama hætti og áður.

„Það hefði samt kostað okkur mun meira að gera ekkert núna,“ sagði Sarkozy um leið og hann lagði áherslu á að hið opinbera gæti einungis gert svo og svo mikið til að byggja upp hagkerfið á ný.