Fjárfestingarbankastarfsemi er í dvala á Íslandi á dag og yrðu sjálfstæðir viðskiptabankar afar stór hluti núverandi stærðar heildarbankakerfisins ef aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarstarfsemi yrði raunin. Helsta tenging á milli innlendra banka er í gegnum viðskiptabankastarfsemi og því minnka líkur á smiti á milli banka, t.d. ef einn banki fer í þrot, ekki mikið þó ólík starfsemi verði aðskilin. Fjárfestingarbankastarfsemi kemur þó til með að aukast á næstu árum og áhrif aðskilnaðar til að koma í veg fyrir smit á milli stofnana gæti því aukist.

Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu greiningardeildar Arion banka um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka.

Í skýrslunni kemur fram að fjármögnun banka breytist í kjölfar aðskilnaðar. „Viðskiptabankar þurfa að reiða sig í auknum mæli á sértryggð skuldabréf og hlutfall almennra krafna af heildarskuldum er minni en í alhliða bönkum. Í kjölfarið má búast við því að væntar endurheimtur innlána ef til þrots kemur verði lægri en áður“, segir í skýrslunni. „Þetta atriði vegur ekki þungt nú en mun aukast samhliða aukinni fjárfestingarbankastarfsemi. Íslenskir fjárfestingarbankar munu eiga afar erfitt með að fjármagna sig og ná hagkvæmri fjármagnsskipan. Afleiðingin verður sú að framboð fjárfestingarbankaþjónustu dregst saman og verð hækkar. Í kjölfarið má búast við minni virkni á fjármálamarkaði til skemmri og meðallangs tíma.“

Þá segir jafnframt að útlit sé fyrir að aðskilnaður geri fjármálakerfið hvorki öruggara né dragi úr væntum kostnaði almennings vegna starfsemi banka.