Rafbílum hefur fjölgað hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Það kemur ekki á óvart enda mikil vakning í umhverfismálum. Margir sjá fyrir sér hagkvæmnina að nýta íslenska orkugjafa og spara þannig háar fjárhæðir í kaup á bensín eða dísil eldsneyti sem og að minnka mengun.

Alls hafa verið 280 nýskráningar rafbíla á þessu ári en alls telur rafbílaflotinn á Íslandi 497 bíla. Þá eru ótaldir allir tvinnbílarnir þ.e. með rafmótor á móti bensín- eða dísilvélum. Alls eru 15 gerðir rafbíla nú í boði á Íslandi og fleiri gerðir munu án efa bætast við á næsta ári enda mikil þróun í gangi hjá bílaframleiðendum varðandi rafbíla.

Tesla senuþjófurinn en Leaf selst best

Þó svo að Tesla Model S sé senuþjófurinn í flokki rafbíla þessi misserin, er það þó Nissan sem selur langflesta rafmagnsbíla og það helst með hinum ágæta Leaf. Nissan-Renault samstæðan hefur samtals selt yfir 200.000 rafmagnsbíla frá árinu 2010 og þar af hafa selst 130.000 Leaf bílar. Aðrar rafbílgerðir samstæðunnar eru Renault Zoe, Renault Twizy, Renault Kangoo og Nissan e-NV200 sendibíllinn.

Kia Soul EV er nýkominn markað hér á landi en hann var á dögunum kosinn bíll ársins í Noregi. Kia Soul EV er fyrsti rafbíll suður-kóreska bílaframleiðandans sem fer á alþjóðlegan markað en hann hefur 212 km drægni við bestu hugsanlegu aðstæður. Kia Soul EV er knúinn 81,4 kw rafmótor sem skilar 111 hestöflum og 285 NM togi til hjólanna. Bíllinn er innan við 12 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið en hámarkshraði hans er 145 km/klst. Mitsubishi Outlander PHEV er einnig mjög athyglisverður en hann er eini rafknúni, fjórhjóladrifni sportjeppinn sem er í boði.

Nánar er fjallað um málið í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .