Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) fagnar í dag 10 ára afmæli. Margrét Kristmannsdóttir, formaður félagsins og framkvæmdastjóri Pfaff, segir í samtali við Viðskiptablaðið að atvinnulífið þurfi að átta sig á nauðsyn þess að hafa fjölbreytni þegar kemur að vali á stjórnarmeðlimum fyrirtækja.

Hún telur að framferði fárra einstaklinga í viðskiptalífinu hafi svert ímynd allra og þeir sem ekki hafi tekið þátt í taumlausri gleði síðustu ára hafi því miður verið litnir hornauga.

Þegar Margét er spurð út í fyrirtækjarekstur á Íslandi almennt og hvernig aðstæður muni þróast á næstu misseri svarar Margrét:

„Það er ekki nokkur spurning að þetta ár og næsta verða mjög erfið og sennilega erfiðustu ár sem stjórnendur í dag munu nokkurn tíma þurfa að standa frammi fyrir. Það verða fyrirtæki sem munu ekki komast í gegnum næstu tvö ár en ég tel að það skipti miklu máli að fyrirtækin sem standa þetta af sér munu að öllum líkindum koma sterkari út úr þessu þegar upp er staðið.“

Getur verið að of mörg fyrirtæki hafi verið rekin of nálægt brúninni, þ.e. með þannig rekstur að ekkert mátti út af bera?

„Ég segi nú bara eins og er: það er fullt af fyrirtækjum á Íslandi sem hafa verið rekin af eintómum fíflaskap og menn höguðu sér alveg eins og vitleysingar – eins og enginn væri morgundagurinn,“ segir Margrét.

„Menn fóru allt of djarft, það var rosalega gaman að vera til, taka lán og kaupa hitt og þetta en það var eins og alla framtíðarsýn skorti.“

Margrét bætir því við að allt sem heitið hafi ráðdeild og hagsýni hafi þótt leiðinlegt. Þannig hafi þeir sem vildu staldra við og tóku ekki þátt í gleðinni af fullum áhuga verið álitnir gleðispillar, litnir hornauga og helst settir til hliðar.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Margréti í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .