Skýrsla um þróun mála innan Evrópusambandsins og stöðu aðildarviðræðna verður lögð fram á Alþingi í haust. Að loknum umræðum á Alþingi verður tekin ákvörðun um næstu skref í málinu að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sigmundur fundaði í morgun með Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, í Brussel.

Rompuy sagðist ánægður með að fyrsta ferð Sigmundar Davíðs væri til Brussel og að það bæri vott um mikilvægi sambands Íslands og ESB. Á fundinum var farið yfir pólitísku stöðuna á Íslandi og áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Hann lagði áherslu á að ESB vildi standa við skuldbindingar sínar í sambandi við stækkunarferlið og að beggja hagur lægi í því að forðast langt óvissutímabil.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tók í sama streng og sagði sambandið reiðubúið að halda áfram aðildarviðræður ef Íslendingar kjósa að halda þeim áfram.

Sigmundur Davíð sagði að hvernig sem færi væri ríkisstjórnin staðráðin í að viðhalda sterkum tengslum við ESB og aðildarlönd þess. Málið verði rætt á Alþingi í haust eftir að þingið hafi fengið í hendur skýrslu um þróunina innan ESB og aðildarviðræðnanna fram að þessu. Þá verði tekin ákvörðun um framhaldið.