*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 2. október 2018 15:48

Framkvæmdastjóra Audi sagt upp

Framkvæmdastjóra Audi, sem var handtekinn í júní vegna aðildar að mengunarmálinu, hefur verið formlega sagt upp.

Ritstjórn
Rupert Stadler var handtekinn í júní vegna aðildar sinnar að máli sem varðar vísvitandi blekkingar dísel-knúinna bifreiða Volkswagen-samstæðunnar, þar með talið Audi, á opinberum mengunarprufum.
epa

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur sagt Rupert Stadler, framkvæmdastjóra Audi, formlega upp störfum. Stadler var handtekinn í júní fyrir þátt sinn í blekkingum á mengunarprufunum díselvéla fyrirtækisins. Financial Times segir frá.

Stadler hefur enn ekki verið ákærður, en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í júní. Ástæða uppsagnarinnar er sögð sú að hann sé ófær um að sinna skyldum sínum.

Ákvörðunin er sögð hafa verið erfið, og mikið rædd innan stjórnarinnar, þar sem enn hafi Stadler ekki verið formlega sakaður um neitt.

Tæknin sem notuð var til að svindla á mengunarprufunum var afhjúpuð árið 2015, og átti uppruna sinn hjá Audi, en var notuð í fleiri bíltegundum innan Volkswagen-samstæðunnar. Þrátt fyrir það fékk Stadler, sem hefur verið framkvæmdastjóri frá 2007, að halda starfinu, og ráðningarsamningur hans var framlengdur til 2022 í fyrra.

Volkswagen hefur ekki gefið upp hvað það muni kosta félagið að rjúfa samninginn við Stadler, en búist er við að það velti á því hvort hann verði sakfelldur og þá fyrir hvað.

Stikkorð: Audi Rupert Stadler