Stjórn Marels hefur veitt framkvæmdastjórn félagsins og lykilstarfsmönnum kauprétti að allt að 11 milljónum hluta í félaginu.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að þetta sé í samræmi við kjarastefnu sem samþykkt var á síðasta aðalfundi. Áður var samþykkt að heimila stjórn að gefa út allt að 45 milljónir nýrra hluta í tengslum við kaupréttarsamninga.

Veittur er kaupréttur að hlutabréfum á grunnverðinu 0,967 evrum á hlut. Það jafngildir 156,7 krónum og er í takti við núverandi gengi á markaði. Kaupréttarsamningarnir verða virkir í þrennu lagi árin 2015, 2016 og 2017. Heildarfjöldi kauprétta sem Marel hefur veitt starfsmönnum nemur 33,2 milljónum.

Heildarkostnaður vegna nýju samninganna næstu fimm ár er áætlaður um 1,4 milljónir evra, jafnvirði um 226 milljónum króna.

Marel Aðalfundur 29.02.2012
Marel Aðalfundur 29.02.2012
© BIG (VB MYND/BIG)
Frá aðalfundi Marel í vor. Fremstur á myndinni er stjórnarformaður Árni Oddur Þórðarson. Helstu stjórnendur fyrirtækisins sitja við borðið.