Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spáir 0,3% samdrætti á evrusvæðinu á þessu ári. Samkvæmt fyrri spám sem birtar voru í nóvember í fyrra var talið að vöxtur yrði um 0,5%. Spáin gerir ráð fyrir að mestur verði vöxtur í Lettlandi, Litháen og Póllandi en minnstur í Grikklandi og Portúgal. Þessi lönd hafa öll farið illa úr efnahagskreppu síðustu ára en á meðan þrjú fyrrnefndu eru á uppleið standa bæði Grikkland og Portúgal enn illa. Skemmst er þess að minnast að neyðarlánapakki til Grikklands var afgreiddur af fjármálaráðherrum evruríkjanna aðfaranótt þriðjudags.

Í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni kemur fram að búist sé við að óvænt stöðnun efnahagsbata á síðari hluta árs 2011 komi til með að hafa áframhaldandi áhrif á fyrstu tveimur ársfjórðungum 2012 og því hafi fyrri spár verið endurskoðaðar. Á árinu er búist við samdrætti í landsframleiðslu níu landa en vexti í sautján og kemur jafnframt fram að spár um verðbólgu hafi verið hækkaðar vegna stöðugt hærra orkaverðs og aukinnar óbeinnar skattlagningar á svæðinu.