Framkvæmdastjórar Kepler Equities, dótturfyrirtækis Landsbanka Íslands hf, Stéphane Michel og Arnaud Michel, hafa sagt upp störfum hjá félaginu. Laurent Quirin, sem verið hefur formaður framkvæmdastjórnar félagsins, mun því frá og með deginum í dag verða framkvæmdastjóri félagsins auk þess að vera áfram formaður framkvæmdastjórnar.

Í tilkynningu Landsbankans kemur fram að þessi "endurskipulagning" sé hluti af kaupum Landsbankans á Kepler og er ætlað að einfalda stjórnskipulag og ábyrgðarsvið innan félagsins

Stéphane Michel og Arnaud Michel voru ásamt Laurent Quirin í lykilhlutverki fyrir hönd Kepler í þeim verkefnum sem tengdust kaupum Landsbankans á félaginu.

Í tilkynningu bankans kemur fram að Kepler mun halda áfram uppbyggingu dreifikerfi félagsins sem byggir á sölu og miðlun hlutabréfa til fagfjárfesta auk þess að reka öfluga greiningardeild. Samhliða þessu mun félagið leita leiða til að styrkja starfsemi félagsins verulega á sviði eignastýringar og fjárfestingabankastarfsemi

Starfsemi Kepler mun nú verða skipt í sex áherslusvið sem eru miðlun til fagfjárfesta, greiningarsvið, þjónustu við vogunarsjóði, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf auk starfsemi félagsins í Bandaríkjunum. Þessum sviðum stýra aðilar með mikla alþjóðlega reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á viðkomandi áherslusviðum og landsvæðum auk langrar starfsreynslu hjá Kepler.

Laurent Quirin er framkvæmdastjóri Kepler auk þess að verða áfram formaður framkvæmdastjórnar félagsins. Áður var hann framkvæmdastjóri hjá Dynabourse International, sem er dótturfyrirtæki Crédit Agricole.

Marlon Kelly, yfirmaður Kepler í Amsterdam, mun taka við ábyrgð á miðlun verðbréfa til fagfjárfesta.

Antonio Urbano, yfirmaður Kepler í Milanó, mun taka við ábyrgð á miðlun verðbréfa til vogunarsjóða.

Jose Antonio Hernandez kemur aftur til starfa og mun leiða greiningarsvið félagsins. Á árunum 2001 til 2004 var Jose yfirmaður Kepler á Spáni.

Peter Romanzina, yfirmaður Kepler í Zurich, mun leiða fyrirtækjaþjónustu félagsins.

René Seitz, yfirmaður Kepler í Frankfurt, mun áfram leiða eignastýringu félagsins.

Benoit Piussan, yfirmaður Kepler í New York, mun áfram leiða starfsemi félagsins í Bandaríkjunum.

Um Kepler Equities

Kepler, dótturfyrirtæki Landsbanka Íslands, er leiðandi verðbréfafyrirtæki í Evrópu sem sérhæfir sig í sölu og miðlun hlutabréfa til fagfjárfesta auk þess að reka öfluga greiningardeild. Kepler hóf nýlega að þróa eignastýringarstarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi.

Kepler hefur tæplega 60 greinendur sem vinna að greiningum á 430 félögum og dreifikerfi sem telur 95 sölumenn og miðlara. Félagið sem er með höfuðstöðvar í París hefur auk þess starfsemi í Amsterdam, Frankfurt, Madrid, Mílanó og Zurich auk söluskrifstofu í New York. Félagið fylgist með og greinir yfir 430 fyrirtæki í Evrópu og telur yfir 800 fagfjárfesta meðal viðskiptavina sinna. Starfsmenn félagsins eru samtals 240