Í kynningu Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar fyrir umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur í dag kemur fram að hæsta gjald fyrir bílastæði í Reykjavík er 150 krónur á klukkustund en í Kaupmannahöfn eru teknar 426 krónur fyrir sambærilegt stæði.

„Gjaldskrá þarf að hækka í Reykjavík,“ segir Kolbrún Jónatansdóttir framkvæmdastjóri en þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Þar segir að gjaldskrá vegna bílastæða í Reykjavík er ekki sambærileg við þær sem gilda í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum né heldur í London. Kolbrún nefnir sem dæmi að lagt er 1500 kr. gjald á bifreið ef gjaldmælir er fallinn, gjald sem lækkar í 950 kr. ef það er greitt innan þriggja daga. Danskir ökumenn í Kaupmannahöfn greiða hins vegar 8.364 kr. fyrir sama athæfi. Leggi ökumaður á gangstétt eða í stæði fyrir fatlaða er lagt á þá 2.500 kr. stöðubrotagjald í Reykjavík sem lækkar í 1.950 kr. ef greitt innan þriggja daga.

„Gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur er langt á eftir miðað við það sem gerist í nágrenni við okkur,“ segir Kolbrún og að gjaldtaka fyrir stöðubrot sé aðeins brot af því sem gerist annars staðar. Verð fyrir bílastæði í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs er 80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 50 krónur eftir það. Hálfur dagur kostar því 230 krónur. Hálfur dagur í Osló í Noregi kostar 2.520 krónur.

Vill bæta viðhorft til stöðumælavarða

Í tilkynningu frá umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur vegna kynningar Bílastæðasjóðs kemur fram að Kolbrún vill einnig vinna því að bæta viðhorf borgarbúa til Bílastæðasjóðs og ekki síst stöðuvarða „sem eru eingöngu að sinna vinnu sinni,“ segir í tilkynningunni.

Bílastæðastjóður rekur sjö bílahús í Reykjavík það nýjasta við Laugaveg 86-94. Fjöldi stæða í bílahúsum 1.280. Fjöldi stæða við gjaldmæla um það bil 2.500.

Hægt er að nálgast kynninguna hér.