Þeir Guðmundur Páll Líndal og Jósep Birgir Þórhallsson stofnendur og framleiðendur Lava Cheese ostasnakksins opnuðu í síðasta mánuði nýja verksmiðju í Svþjóð og er Jósep fluttur þangað út til að hasla fyrirtækinu völl á nýjum markaði.

„Við erum byrjaðir að selja í búðir en fyrstu vörukynningarnar eru þessa dagana ,“ segir Guðmundur, en þeir eru komnir með vörur sínar, ostasnakk með chillí bragði og reyktum cheddar í kaupfélagsverslanir CoOp í Svíþjóð og ICA verslunarkeðjuna sem er ein stærsta verslunarkeðja Skandinavíu.

„Svo erum við með vilyrði frá öðrum verslunum og stórum keðjum. Þetta er stundum svolítið langt ferli að komast inn í verslun. Þeir segjast ætla að taka þig inn, en svo kemur pöntun kannski ekki fyrr en tveimur vikum seinna, þannig að það er erfitt að segja nákvæmlega hvað við erum komnir inn í margar verslanir. Við erum þó byrjaðir að selja í einhverjum fimm eða sex verslunum CoOp í Svíþjóð, ásamt nokkrum sælkeraverslunum auk þess sem fyrsta pöntunin er á leið í verslanir ICA.“

Næstu skref hjá þeim félögum í Svíþjóð eru á sömu nótum og þegar þeir hófu að kynna vöru sína hér á landi, en Guðmundur segir árangurinn fyrst og fremst velta á því að mæta á staðinn og kynna vöruna í verslunum.

„Síðan erum við að fara að taka þátt í Smaka på Stockholm, sem er svona eins og matarmarkaður Búrsins, bara margfallt stærri. Síðan eru hinar og þessar smærri hátíðir sem við erum að fara að taka þátt í,“ segir Guðmundur en það var einmitt á fyrrnefndum matarmarkaði hér heima sem ýmsir tóku eftir ostasnakkinu þeirra í fyrsta sinn.

„Þetta byrjaði allt þannig að við vorum með sitt hvorn bjórinn að hafa til fyrir okkur grillaðar samlokur og svo fórum við báðir að plokka stökka ostinn sem kemur þegar osturinn rennur af samlokunni og festist á hliðinni. Við fórum að velta fyrir okkur af hverju þetta væri ekki til sem snakk, enda langbesti hlutinn af samlokunni. Þetta var síðan enn góð hugmynd þegar við vöknuðum daginn eftir og þegar við fórum að prófa okkur áfram fundum við aðferð til að búa þetta til. Síðan fórum við á matarmarkað Búrsins og þar gekk okkur svo vel að selja að annar varð að vera heima til að framleiða.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . A ðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Landeldisstöð sem fengið hefur hátt í milljarð í aukið hlutafé
 • Samdrátt í hagnaði hjá einni stærstu veitingahúsakeðju landsins
 • Gamalgróið íslenskt framleiðslufyrirtæki tapar þrátt fyrir uppsagnir
 • Fjallað er um útrás íslensks fyrirtækis í Asíu
 • Íslensk nýsköpun í framleiðslu dróna gæti nýst í hernaðarlegum tilgangi
 • Enn einn dóminn á hendur Mjólkursamsölunni vegna samkeppnislagabrota
 • Áhrif styrkingar Bandaríkjadals á nýmarkaðsríki víða um heim
 • Þróun krónunnar til framtíðar að mati helstu sérfræðinga
 • Jónína Bjartmarz formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins er í ítarlegu viðtali
 • Nýjasta fjölskyldubílinn frá BMW sem er bæði sportlegur og búinn í utanvegaakstur
 • Nýja lausn í fjármálaþjónustu sem var valinn í nýjasta viðskiptahraðal StartUp Reykjavík
 • Nýr framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir frá umskiptum í lífi sínu
 • Óðinn skrifar um hröð umskipti útrásarvíkings í sósíalistaforkólf
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um auðmjúka stjórnmálamenn.