Í lok janúar var listi yfir 624 íslensk fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu Creditinfo yfir framúrskarandi árangur í rekstri kynntur. Þar sem meira en helmingur fyrirtækjanna á í viðskiptasambandi við Landsbankann sendi bankinn öllum fyrirtækjunum hamingjuóskir með góðan árangur og gaf í þeirra nafni gjafir hjá UNICEF fyrir þrjár milljónir króna.

„Við erum innilega þakklát fyrir þetta ótrúlega rausnarlega framlag,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Að sögn Völu Karenar Viðarsdóttur, fjáröflunarfulltrúa hjá UNICEF á Íslandi, voru hjálpargögn af öllum stærðum og gerðum í sendingunni frá Íslandi.

„Við höfum aldrei fengið jafnstóra pöntun af sönnum gjöfum og erum hæstánægð með þetta,“ segir Vala. „Gjöfunum verður nú dreift til barna og fjölskyldna þeirra með milligöngu birgðastöðvar UNICEF. Framtakið hjá Landsbankanum er frábært og mun sannarlega koma í afar góðar þarfir,“ bætir hún við.