Að því gefnu að kaupréttir í verslunar-og þjónustufyrirtækinu N1 verði nýttir mun Framtakssjóður Íslands (FSÍ) fara með tæplega 45% eignarhlut í N1. FSÍ tilkynnti um kaup á 39% hlut í félaginu af Arion banka. Þar af er 10% hlutur sem fyrrum skuldabréfaeigendur N1 eiga kauprétt á síðar. Áður hafði FSÍ keypt 15,8% hlut af Íslandsbanka og skilanefnd Glitnis. Stefnt er að skráningu N1 í kauphöll ekki seinna en á miðju ári 2013. Eftir viðskiptin á Arion ekki hlut í N1. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ segir í tilkynningu það ánægjulegt að FSÍ hafi fengið tækifæri til að auka eignarhlut sinn enn frekar. „N1 hefur alla burði til að standa sig vel í öflugri samkeppni á neytenda- og fyrirtækjamarkaði á komandi árum. Við munum leggja áherslu á að bæta rekstur félagsins enn frekar og koma síðan félaginu á hlutabréfamarkað með dreifðu eignarhaldi.“

Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri Arion banka, segir að bankinn hafi aldrei ætlað sér að vera langtíma eigandi félagsins. „N1 er stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi og gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki um land allt. Markmið bankans í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins var að tryggja áframhaldandi rekstur þess og það markmið hefur nú náðst. Arion banki ætlaði sér aldrei að vera langtíma eigandi félagsins og telur mikilvægt að koma félaginu sem fyrst í almenna eigu. Þau áform hafa nú gengið eftir með sölunni á N1 til Framtakssjóðsins sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða landsins. Arion banki telur mjög mikilvægt að skrá á markað þau félög sem þar eiga heima í því augnamiði að endurreisa íslenska hlutabréfamarkaðinn. Sú ákvörðun sem nú liggur fyrir að hálfu Framtakssjóðsins um skráningu N1 á markað var ein af meginforsendum fyrir sölu bankans á sínum hlut. Við teljum þetta góða niðurstöðu fyrir bankann og N1.“