Þó það kunni að hljóma einkennilega að telja vöxt á Grænlandi sem hluta af framtíðartækifærum Íslands, þá er rétt að huga að því hvernig Íslendingar geta tekið þátt í þeim vexti. Viðskiptablaðið hefur á undanförnum vikum fjallað um hina ýmsu möguleika sem standa þjóðinni til boða til vaxtar og hagsældar á næstu árum. Í sjötta hluta er horft til vaxtar á Grænlandi sem Íslendingar geta mögulega tekið þátt í.

Í mörgum tilvikum þurfum við að horfa út fyrir landsteinana til að meta framtíðarmöguleika Íslands. Í einu tilviki þurfum við þó ekki að horfa langt því allt stefnir í að mikill uppgangur sé framundan á Grænlandi sem Íslendingar geta tekið þátt í. Viðhorf Grænlendinga til Íslendinga er almennt gott en hins vegar eru Grænlendingar að miklu leyti upp á Dani komnir. Það hefur þó verið að breytast og stefnt er að því með auknum umsvifum í landinu að landið verði á einhverjum tímapunkti efnahagslega sjálfstætt.

Sem fyrr segir eiga Grænlendingar mikið undir Dönum, en landið er sem kunnugt er undir dönskum yfirráðum. Einn viðmælandi Viðskiptablaðsins lýsti því þó þannig að Danir væru jafn dugleir að hirða styrki sína til baka inn í danskt efnahagslíf. Viðkomandi tók sem dæmi að á dönskum flugvöllum mætti gjarnan finna dýr Bang & Olufsen tæki (dönsk framleiðsla), sem væntanlega hefðu þó verið keypt fyrir styrki frá dönskum yfirvöldum.

Höfundur þessarar greinar hefur þó ekki sannreynt þetta en hvað sem því líður þá geta Íslendingar dregið sig nær Grænlendingum og tekið þátt í uppgangi nágranna okkar. Á Grænlandi búa í dag um 57.500 manns (1/6 af íbúafjölda Íslands).

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.