Frönsk stjórnvöld þrýst nú mjög á um að Daniel Bouton, stjórnarformaður Societe Generale, segi af sér  vegna hins umfangsmikla svikamáls er kostað hefur bankann um 500 milljarða króna. Bouton lagði fram afsögn sína í seinustu viku en stjórn bankans tók hana ekki til greina.

„Við búum við kerfi þar sem þeir sem hálaunamenn sem lenda í vanda geta ekki vikið sé undan ábyrgð,” sagði Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti síðdegis í gær og gaf þannig í skyn hver vilja hans er í málinu. Christine Lagarde, fjármálaráðherra, segir að stjórn bankans verði að ákveða örlög Bouton í ljósi tveggja þátta, annars vegar núverandi stöðu og hins vegar framtíðarstöðu banka sem hefur yfir 120 þúsund manns í vinnu og milljónir viðskiptavina.

Rachida Dati, dómsmálaráðherra Frakklands, segir einnig að Bouton verði að taka ábyrgð á hinu gríðarlega tapi bankans og draga verði fram í dagsljósið alla þá sem ábyrgð bera í málinu.

Hinn 31 árs gamli Frakki, Jerome Kerviel, sem talinn er bera ábyrgð á 500 milljarða tapi bankans, er m.a. sakaður um trúnaðarbrot, skjalafölsun og notkun falsaðra skjala, ásamt því að brjótast inn í tölvukerfi. Verði hann fundinn sekur um trúnaðarbrot gæti hann í mesta lagi fengið þriggja ára fangelsisdóm og sekt upp á um 10 milljónir króna.