Franskt fyrirtæki, Groupe Ludendo, hefur tekið við rekstri bresku leikfangaverslunarinnar Hamleys. Samkvæmt frétt BBC borgaði franski leikfangasalinn 60 milljónir punda fyrir Hamleys, sem rekur átta verslanir í Bretlandi og Írlandi. Hamleys var áður í eigu gamla Landsbankans, sem hafði tekið við versluninni frá Baugi Group, sem keypti hana árið 2003.

Áhugavert er að Baugur Group greiddi 59 milljónir punda fyrir Hamleys á sínum tíma og hefur verðið því lítið sem ekkert hreyfst á þeim níu árum sem liðin eru frá kaupunum.Hamleys á sér 250 ára sögu og segir talsmaður Groupe Ludendo að franska fyrirtækið beri mikla virðingu fyrir sögu og hefðum verslunarinnar. Með kaupunum vonist fyrirtækið til að komast inn á breska markaðinn.