Skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) fyrir lánafyrirgreiðslu við Ísland voru gerð opinber á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum síðdegis, en Geir H. Haarde forsætisráðherra ítrekaði að Alþingi ætti síðasta orðið um hvort gengið yrði að samningnum af Íslands hálfu.

Áætlunin var kynnt af Friðriki Má Baldurssyni prófessor, en hann stýrði vinnunni af Íslands hálfu.

Markmiðið áætlunarinnar eru þríþætt í höfuðdráttum. Í fyrsta lagi er endurreisn bankakerfisins og endurfjármögnun þess, í öðru lagi endurskipan ríkisfjármála og í þriðja lagi ný peningamálastefna.

Gert er ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkisins til þess arna nemi 5 milljörðum Bandaríkjadala, en að þörf þjóðarbúsins alls sé fimm sinnum hærri. Miklar umhleypingar í efnahagslífinu eru fyrirsjáanlegar og verulegar búsifjar í þjóðarbúskapnum. Gangi allt eftir er talið að verðbólgan verði komin niður í 4,5% í árslok 2009.

Í áætlun íslenskra stjórnvalda og IMF er ráð fyrir því gert að krónan verði sett á flot svo skjótt sem auðið er. Samþykki stjórn sjóðsins lánafyrirgreiðsluna og Alþingi sömuleiðis ættu ekki að líða meira en tíu dagar uns þeir fjármunir verða tiltækir. Í framhaldi af því mætti hleypa krónunni á flot en Geir vildi ekki tilgreina hvenær. Spurður hvort það yrði fyrir áramót taldi hann að það myndi gerast vel fyrir þau.

Fall krónu fyrirsjáanlegt

Gert er ráð fyrir að krónan geti fallið rækilega í verði við það, en forsætisráðherra áréttaði að þó viðbúið væri að þá færi talsvert fjármagn úr landi þá væri sá halli úr sögunni, þeir færu ekki aftur úr landi. Hann vildi þó ekki taka svo til orða að þeir yrðu svældir út.

Í því samhengi er gert ráð fyrir að grípa megi til frekari vaxtahækkana til þess að stemma stigu við því, en forsætisráðherra áréttaði að vextir gætu einnig lækkað ef svigrúm gæfist til. Hins vegar væri viðbúið að breytingar á stýrivöxtum myndu einar og sér ekki duga til og því væri ráð gert fyrir aðhald í lánum Seðlabankans til viðskiptabankanna.

Enn fremur kæmi til greina að grípa til hafta á fjármagnsflutningum úr landi til þess að koma í veg fyrir að þeir fjármunir, sem ætlaðir eru til þess að styrkja gjaldmiðilinn og gjaldeyrisvaraforðann, hverfi úr landi. Forsætisráðherra tók fram að þau höft myndu ekki taka til almennra gjaldeyrisviðskipta til þess að greiða fyrir vöru, þjónustu og þess háttar. Hann játaði að höft af þessu tagi væru óyndisúrræði og þau yrðu aldrei nema tímabundin ráðstöfun.

Aðildarumsókn að ESB ekki í undirbúningi

Viðskiptablaðið innti Ingibjörgu Sólrúnu eftir því hvort rétt væri að utanríkisráðuneytið hefði þegar unnið drög að aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB), en frá því var greint í Financial Times (FT) í morgun.

Utanríkisráðherra sagði það rangt hjá FT , en að hitt væri rétt að utanríkisráðuneytið hefði kortlagt hvernig aðildarviðræður að Evrópusambandinu gengu fyrir sig, hvernig verkferlar væru og annað í þeim dúr.

Viðskiptablaðið spurði hver staða Íslands væri í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) ef ESB vildi ekki fallast á að augljós réttaróvissa yrði dómtekin í því skyni að eyða réttaróvissu.

Hvort ekki væri ljóst að Evrópusambandsríkin 27 gætu farið sínu fram gagnvart Íslandi í því skjóli og þar af leiðandi sjálfhætt í EES. Utanríkisráðherra taldi svo ekki vera, að ávinningurinn af EES væri meiri en kostnaðurinn.

Þá voru ráðherrarnir spurðir út í hvort sú staðreynd að DV hefði birt fyrri útgáfu af samkomulaginu við IMF, sem þannig væri annað trúnaðargagn ríkisstjórnarinnar sem færi á flakk á nokkrum vikum, kallaði ekki á rannsókn, taldi Ingibjörg Sólrún svo ekki vera. Á skjalinu mætti þekkja rithönd og fullyrti ráðherrann að lekinn væri ekki úr ríkisstjórninni.