Samruni Mars og Wrigley ýtir Cadbury úr fyrsta sætinu sem stærsti sætindaframleiðandi í heimi. Talið er að Cadbury ætli að berjast fyrir sæti sínu á toppnum með því að taka yfir Hershey, en fyrirtækin áttu í samrunaviðræðum á sínum tíma. Greiningaraðilar sem Reuters talaði við telja að augljósasta skrefið fyrir Cadbury sé að hefja viðræður við Hershey að nýju.

Hingað til hefur aðaleigandi Hershey, sem á 78% hlut í fyrirtækinu, ekki viljað gefa neitt eftir af sínum völdum í fyrirtækinu. Hins vegar varð til með samruna Mars og Wrigley fyrirtæki með árssölu upp á 27 milljarða Bandaríkjadala, en áður var sala Wrigley á ársgrundvelli 5,4 milljarðar Bandaríkjadala. Hluti af sölutölum Mars koma frá vörum eins og Uncle Ben´s hrísgrjón og dýrafóðri. Sala Hershey á ári er 4,9 milljarðar dala og Cadbury 5,2 milljarðar.

Greiningaraðilar telja eins og áður sagði að samruni Hershey og Cadbury væri rökrétt skref fyrir bæði fyrirtækin, en Cadbury skortir markaðsfestu í Bandaríkjunum sem Hershey hefur, á meðan Hershey skortir alþjóðlega vídd, sem Cadbury hefur.

Nái Cadbury ekki að kaupa Hershey er jafn vel líklegt að boðið verði í Cadbury, en stærsta matvörufyrirtæki Bandaríkjanna, Kraft Foods Inc, hefur verið nefnt sem hugsanlegur kaupandi.