Ekki er hægt að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja raforukstreng milli Íslands og Evrópu. Til þess þarf frekari upplýsingar. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í formála að skýrslu ráðgjafahóps sem falið var að fjalla um lagningu sæstrengs til Evrópu. Skýrslan er tæpar 200 blaðsíður.

Ráðgjafahópurinn skilað skýrslu sinni til iðnaðar- og viðskiptaráðherra í lok júní, en henni var dreift á Alþingi í dag. „Það er skoðun mín að nauðsynlegt sé að fá fram ítarlega og greinargóða umræðu um verkefni af þeirri stærðargráðu sem lagning raforkustrengs til Evrópu er, kosti þess og galla og áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf,“ segir Ragnheiður Elín.

„Í skýrslunni kemur fram að ráðgjafarhópurinn var samhljóða í ályktun sinni um að frekari  upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni  þess að leggja raforkustreng milli Íslands og Evrópu. Margir óvissuþættir fylgi slíkri framkvæmd og frekari könnun á ýmsum atriðum þurfi því að eiga sér stað áður en unnt sé að taka ákvörðun um hvort æskilegt sé að fara í slíkt verkefni. Rétt er að taka undir þessar ábendingar og fara sér hægt áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar í þessum efnum. Enn fremur er mikilvægt að mínu mati að slík ákvarðanataka verði byggð á okkar forsendum, óháð þrýstingi erlendis frá til að tengja Ísland við raforkukerfi Evrópu,“ segir Ragnheiður Elín.

Ragnheiður Elín segir ljós að lagning sæstrengs með flutningsgetu upp á um 700 til 1,100 MW mun hafa í för með sér víðtæk áhrif; bæði efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg. Má þar nefna áhrif á orkuverð innanlands, aukning þjóðartekna, hugsanleg ruðningsáhrif, umhverfisáhrif vegna nýrra virkjana og línulagna, orkuöryggi o.s.frv. Hver áhrifin verða er hins vegar enn að mörgu leyti óljóst og því þörf á áframhaldandi gagnaöflun áður en unnt er að taka upplýsta afstöðu til slíks verkefnis.