*

föstudagur, 22. janúar 2021
Innlent 21. október 2020 16:21

Frestir lengdir afturvirkt

Frestur rekstraraðila til að sækja um styrk úr ríkissjóði til greiðslu hluta launa starfsmanns í uppsagnarfresti hefur verið lengdur.

Jóhann Óli Eiðsson
Skatturinn annars afgreiðslu umsókna um styrk vegna greiðslu hluta launa úr ríkissjóði á uppsagnarfresti.
Eyþór Árnason

Frestur rekstraraðila til að sækja um styrk úr ríkissjóði til greiðslu hluta launa starfsmanns í uppsagnarfresti hefur verið lengdur. Lagabreyting þess efnis var samþykkt á Alþingi nú rétt fyrir fjögur.

Umrædd lagabreyting er afturvirk og gildir til 6. júní 2020 en þá var slík ráðstöfun samþykkt á þingi. Samkvæmt þeim ber atvinnurekanda að skila gögnum til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil eigi síðar en 20. hvers mánaðar.

Í ljós hefur komið að þeir frestir hafa reynst nokkuð knappir og allmargir sem hafa fallið á því skilyrði. Lagabreytingin nú heimilar það að of seint fram komnar umsóknir verði afgreiddar uppfylli þær skilyrði laganna að öðru leyti.

„Með hliðsjón af markmiði laganna um að tryggja atvinnurekendum sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap stuðning vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast er lagt til að atvinnurekendum verði veitt ríkara svigrúm við skil á umsóknum. Lagt er til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir sem hafa borist að liðnum umsóknarfresti […] enda uppfylli umsækjandi að öðru leyti öll skilyrði laganna fyrir stuðningi. Atvinnurekendum, sem uppfylla skilyrði til greiðslu stuðnings en náðu af einhverjum sökum ekki að skila inn umsókn innan núgildandi frests, gæfist þannig kostur á að fá afgreiðslu á umsókn sinni,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu en það var samþykkt óbreytt.