„Það er stóralvarlegt þegar Times í Bretlandi segir í sunnudagsútgáfu sinni að það sé verið að draga út fé af íslenskum innlánareikningum. Hvaðan halda menn að þessar sögusagnir komi? - Það var ekki eins og það hefði verið haft samband við bankanna. Upplýsingarnar voru ekki komnar frá þeim en samt var þetta sett út,” sagði Ragnar Þórsson, sjóðstjóri hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital, sem tók til starfa á síðasta ári.

Í viðtali við Viðskiptablaðið, sem kemur út á morgun, varpar Ragnar ljósi á starfsaðferðir vogunarsjóða og þá hættu sem er því samfara þegar skortsölumenn koma ónákvæmum upplýsingum á framfæri til fjölmiðla.

„Þetta er það versta sem nokkur banki getur lent í - hvort sem hann er íslenskur eða breskur – þ.e.a.s. að fólk sé að flýja með innlán. Það þýðir bara áhlaup á banka. Það er ekki hægt að fá verri frétt. Þetta er grafalvarlegt og það er greinilegt að það er eitthvað í gangi.”