Niðurstöður álagsprófa, sem bandaríska fjármálaráðuneytið lagði fyrir 19 stærstu banka landsins nýlega, munu gefa skýrari og heildstæðari mynd af fjármálakrísunni vestanhafs en prófin meta meðal annars endurfjármögnunarþörf bankanna.

Niðurstöður prófanna verða kynnta forsvarsmönnum bankanna á morgun og talið er að þær verði birtar opinberlega á fimmtudaginn. Alls er hér um að ræða 2/3 af allri bankastarfssemi í Bandaríkjunum.

Á meðal þeirra banka sem undirgengust álagsprófið eru Citigroup, Bank of America, JPMorgan, Wells Fargo og Goldman Sachs en eins og fyrr segir er alls um 19 banka að ræða.

Viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar gera ráð fyrir að stærstu bankarnir þurfi allt að 150 milljarða Bandaríkjadali í endurfjármögnun ætli þeir sér að halda starfseminni áfram. Þá eru þeir sammála um að hlutabréf í bönkunum séu ekki söluhæf fyrr en niðurstöður prófanna verða gerðar opinberar en lítil viðskipti voru með hlutabréf banka og fjármálastofnanna í síðustu viku.

„Flestir bankar þurfa að endurfjármagna sig verulega. Upphæðirnar eiga líklega eftir að koma á óvart,“ segir einn viðmælanda Bloomberg.

Síðustu daga og vikur hefur ríkt nokkurs konar biðstaða í fjármálakerfinu vestanhafs eða frá því að tilkynnt var að stjórnvöld myndu framkvæma sérstakt álagspróf á fjármálastofnunum og birta niðurstöðurnar opinberlega.

Flestir viðmælendur bæði Bloomberg og eins Reuters fréttastofunnar telja að niðurstöðurnar muni marka tímamót í fjármálakrísunni, þó ekki séu þeir sammála um hvers konar tímamót sé um að ræða. Sumir telja að niðurstöðurnar muni aðeins sýna hversu illa er í raun og veru komið fyrir fjármálastofnunum en aðrir telja að niðurstöðurnar muni aðgreina þær stofnanir sem annars vegar þarf að loka á næstu misserum og hins vegar þeim sem haldið geti starfssemi sinni áfram og í framhaldinu leyst úr þeim vanda sem nú ríkir á mörkuðum.

„Ég hef lengi fylgst með bönkunum en ég man ekki eftir því að það hafi ríkt jafn mikil óvissa um raunverulegt vermæti þeirra,“ segir Douglas Elliott hjá Brookings hugveitunni í Washington.

Fá frest út sumarið

Greiningaraðilar vestanhafs telja flestir að yfirvöld muni lýsa því yfir að allir bankarnir 19 séu starfhæfir en sumum verði gert skylt að endurfjármagna sig umfram aðra. Hvernig þeir svo fara að því er annað mál og mun að öllum líkindum ráðast í sumar. Með því að gefa bönkunum frest fram á haustið geti yfirvöld komist hjá því að „kerfið hrynji á einum degi,“ eins og einn viðmælandi Bloomberg orðar það.

Hlutabréf bankanna hafa, sem fyrr segir, hækkað nokkuð síðustu vikur en það má fyrst og fremst rekja til batnandi afkomu þeirra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Fred Dickson, yfirgreiningaraðili hjá D.A. Davidson & Co segir í samtali við Reuters fréttastofuna að líklega þurfi Citigroup og Bank of America mest á endurfjármögnun að halda en hann telur þó að þeir muni ekki eiga í erfiðleikum með það, fái þeir út sumarið. Þá muni JPMorgan og Wells Fargo einnig þurfa talsverða endurfjármögnun.

Dickson telur þó að gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum, sem hefur hækkað nokkuð síðustu vikur, muni lækka hratt eftir að niðurstöðurnar verða gerðar opinbera þar sem margir hafi litla trú á félögunum og vilji losna við þau til öryggis.

„Ég geri ráð fyrir að talsvert magn hlutabréfa í bönkunum fari á útsölu fyrir næstu helgi. Þessi bréf hafa verið að hækka undanfarnar vikur en það var áður en menn fóru að hafa áhyggjur af álagsprófunum,“ segir Dickson.

„Hvað ef...“

Talið er að yfirvöld hvetji bankanna til að endurfjármagna sig með ýmsum leiðum, t.d. að gefa út skuldabréf, auka hlutafé sitt en einnig með því að losa sig við eignir. Þeir bankar sem hvað verst standa munu þó líklega eiga það á hættu að ríkið taki yfir rekstur þeirra og láti helstu stjórnendur um leið fjúka.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði við fjölmiðla í síðustu viku að álagsprófið væri ekki framkvæmt til að meta sjálfstæði bankanna heldur væri um að ræða „hvað ef“ æfingu, eins  og hann orðaði það, þ.e. að finna veikustu hliðar bankanna og koma í veg fyrir að þær verði bönkunum að falli fari það svo að bandaríska hagkerfið dragist enn frekar saman.

Greiningaraðilar efast þó um gagnsemi þess að opinbera veiku hliðar bankanna og telja að það muni gera þeim erfitt um vik að endurfjármagna sig.

„Hver vill fjárfesta í banka sem ríkið segir að sé veikur á ákveðnum sviðum,“ segir einn viðmælenda Bloomberg og bætti við; „yfirvöld ætla að klæða þig úr fötunum og biðja þig svo um að sannfæra aðra um hversu flottur þú ert í tauinu.“