Stjórnvöld hyggjast ná í 4 til 5 milljarða króna með nýjum 10,5% skatti á launakostnað í fjármálageiranum. Þetta mætir mikilli andstöðu í greininni og hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna sem munu fá þennan skatt á sig lýst þeim sjónarmiðum á fundi með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku hefur Steingrímur J. kynnt þessar hugmyndir fyrir stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og sagt að skatturinn verði hluti af fjárlögum næsta árs.

Óánægjan er svo til almenn hjá öllum þeim sem aðild eiga að SFF. Aðildarfélög SFF eru viðskiptabankar, fjárfestingarbankar, sparisjóðir, tryggingafélög, verðbréfafyrirtæki, eignaleigur og kortafélög. Formaður stjórnar SFF er Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Dönsk fyrirmynd

Fyrirmyndin að skattinum sem kynntur hefur verið til sögunnar er frá Danmörku. Danir leggja sama skatthlutfall á launakostnað og hugmyndirnar hér gera ráð fyrir, auk þess sem hliðstæður skattur er einnig lagður á aðra starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti (VSK) en með lægri skatthlutföllum.

Grundvallarmunurinn á Íslandi og Danmörku hvað þetta umhverfi varðar er það að Danir leggja ekki tryggingargjald á launagreiðslur fyrirtækja. VSKkerfið er síðan með þeim hætti að eitt gengur yfir alla, 25% skattur. Tekjuskattur á fyrirtæki er 25% af hagnaði samanborið við 20% hér á landi. Tryggingargjaldið hér á landi er 8,65%.

Stjórnendur fyrirtækjanna sem munu þurfa að greiða fyrirhugaðan skatt hafa lagt á það áherslu að ekki sé skynsamlegt að gera „séríslenskt“ regluverk um fjármálamarkaðinn hér á landi. Einkum á þessum tímum, þegar miklar breytingar á regluverki fjármálamarkaðarins alþjóðlega eru á teikniborðinu. Stjórnendurnir hafa sagt að frekari skattahækkanir geti dregið úr samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja og valdið því að íslenskt fjármálakerfi einangrist algjörlega frá umheiminum hvað þetta snertir. Það verður ekki sagt að íslenskir bankar megi við því að draga úr trúverðugleika. Að mati World Economic Forum eru íslenskir bankar í 141 sæti af 143 yfir heilbrigði banka. Aðeins bankar í Úkraínu og Írlandi eru fyrir neðan Ísland. Samkvæmt þessu er enn langt í land þegar kemur að uppbyggingu trúverðugleika íslenska bankakerfisins.

Ýmsar hugmyndir

Á alþjóðlegum vettvangi er ýmislegt rætt um hvernig megi endurskipuleggja fjármálageirann m.a. með tilliti til skattlagningar. Meðal þess sem rætt hefur verið um er veltuskattur á fjármálaþjónustu (financial transaction tax, FTT) en hann yrði lagður á selda þjónustu fjármálafyrirtækja. Ekki hefur verið rætt um hversu hár hann yrði. Þá hefur einnig verið rætt um sérstakan skatt á laun og hagnað (Financial activity tax, FAT). Endanlegar útfærslur liggja ekki fyrir enn. Að lokum hefur svo verið rætt um skatt sem lagður yrði á ákveðinn mælikvarða á styrk fjármálafyrirtækja, t.d. heildareignir eða eigið fé. Þessar hugmyndir hafa m.a. verið viðraðar af IMF. Hugsunin með þessum sköttum er að styrkja varnir þjóðríkja fyrir vandamálum fjármálafyrirtækja í einkaeigu.

Gæti hindrað

Meðal þeirra sjónarmiða sem SFF hafa kynnt fyrir fjármálaráðherra er að fyrrnefndar breytingar muni seinka því að fyrirtæki hér á landi verði seld, einkum til erlendra aðila. Öll séríslensk úrræði þegar að þessu kemur geti valdið miklum erfiðleikum þegar kemur að því að fá nýja framtíðareigendur að íslenskum fjármálageira, hvort sem um er að ræða banka eða tryggingafélög.

Fréttaskýringin birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. september 2011.