Samkomulag hefur náðst á milli Byrs og Íslandsbanka um að sá síðarnefndi leggi Byr til nýtt hlutafé og kaupi jafnframt hlut slitastjórnar Byrs og fjármálaráðuneytisins í sparisjóðnum. Fyrirtækin munu síðan sameinast undir merkjum Íslandsbanka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en samkomulagið var kynnt starfsfólki Byrs í gær. Kaupverð er ekki gefið upp auk þess sem sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlits og Fjármálaeftirlits og verður starfsemi fyrirtækjanna óbreytt uns þessi samþykki eru fengin. Þó verður unnið að undirbúningi sameiningarinnar í millitíðinni.

Minnast má þess að haustið 2008 var stefnt að sameiningu Glitnis og Byrs og var Byr m.a. hlutafélagavæddur í því skyni en Glitnir féll þó áður en af sameiningunni gat orðið.

Haft er eftir Jóni Finnbogasyni, forstjóra Byrs, og Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að niðurstaða söluferlisins sé báðum aðilum ánægjuleg og segir Birna hana vera mikilvægan áfanga í uppbyggingu fjármálakerfisins.

Umdeilt söluferli

Umdeildu söluferli er því lokið en eins og fram hefur komið lögðu allir viðskiptabankarnir, Landsbanki, Arion banki, Íslandsbanki og MP banki fram tilboð í Byr. Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru gagnrýnir á söluferlið og segir einn þeirra að mörg salan hafi verið betur framkvæmd. Þannig voru upplýsingar til þátttakenda ófullnægjandi og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félagið ekki skilað ársreikningi. Fyrir það sætir Byr dagssektum frá fjármálaeftirlitinu en jafnframt var uppgjör bankans óendurskoðað og því erfitt að gera sér grein fyrir réttri stöðu hans.

Hagræðingarsjónarmið

Öðru fremur munu það hafa verið hagræðingarsjónarmið sem lágu að baki áhuga keppinauta Byrs á bankanum en einnig hefur bankinn öflugt og vel staðsett útibúanet og sæmilega stóran hóp viðskiptamanna enda kemur það fram í áðurnefndri fréttatilkynningu að það sé mat stjórnenda beggja fyrirtækja að með sameiningu þeirra náist fram mikilvæg hagræðing á fjármálamarkaði. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga þau sjónarmið sem Samkeppniseftirlitið setti fram um samþjöppun á bankamarkaði í umræðuskjali sínu um samkeppni á þeim markaði þar sem fram kemur að mjög sterk rök verði að vera fyrir sameiningum og sömuleiðis að samrunar banka skili almennt tiltölulega lítilli hagræðingu.

Þá hefur eiginfjárstaða bankans verið dregin í efa en þó hefur Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, látið hafa eftir sér að eigið fé bankans sé jákvætt um 9 milljarða króna. Þetta þykir þeim sem fengið hafa aðgang að upplýsingum um stöðu bankans vera óraunhæf upphæð og er talið líklegt að allir áhugasamir hafi boðið mun lægri upphæð fyrir það 14,6 milljarða króna hlutafé sem til sölu var – að nafnvirði – auk þess hlutafjár sem slitastjórn og ríkið vildu losna við. Lengi hefur verið ljóst að staða Byrs var alvarleg og því var sala á bankanum nauðsynleg til þess

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.