Eignir bandarískra heimila jukust um 2.000 milljarða Bandaríkjadali á öðrum ársfjórðungi þessa árs og nema nú um 53.100 milljörðum dala, samkvæmt gögnum sem Seðlabanki Bandaríkjanna birti í gærkvöldi.

Þetta er í fyrsta skipti sem eignir heimilanna aukast á milli ársfjórðunga frá því í um mitt árið 2007 eða í 2 ár en síðast jukust eignir heimilanna á öðrum ársfjórðungi 2007.

Flestir fjölmiðlar vestanhafs fjölluðu um þetta í gærkvöld og höfðu eftir viðmælendum sínum að þarna væru klár batamerki á ferð. Þó hefur verið vakin athygli á því að eignir heimilanna náðu hámarki um mitt ár 2007, 65.300 milljörðum dala, þannig að þrátt fyrir 2.000 milljarða dala aukningu á eignum heimilanna á síðasta ársfjórðungi eru þær töluvert frá þeirri tölu.

Sparnaðurinn er nú að borga sig

Samkvæmt gögnum Seðlabankans má helst rekja hækkunina á eignum heimilanna til þess að síðastliðin tvö ár hefur smátt og smátt dregið úr neyslu Bandaríkjamanna. Rétt er að vekja athygli á því að einkaneysla vestanhafs telur um 2/3 af hagkerfinu þannig að minnkandi einkaneysla dregur verulega úr hagvexti. Hins vegar hafa heimilin verið að spara og því hækka eignir þeirra nú. Þrátt fyrir 0% stýrivexti seðlabankans eru enn leiðir til að ávaxta fé sitt, þá helst með ríkistryggðum skuldabréfum, en samkvæmt greiningu Reuters fréttastofunnar má helst rekja hækkunina til mikilla vaxta og umsvifa heimilanna á fjármálamarkaði.

Þannig eiga heimilin nú töluvert í ríkistryggðum skuldabréfum en eign heimilanna hækkaði úr 576,4 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi upp í 605,9 milljarða dali á öðrum ársfjórðungi. Þá hefur eign heimila á ríkistryggðum skuldabréfum hækkað um 65% milli ára og hafa ekki verið hærri frá fyrsta ársfjórðungi 2006 að sögn Reuters.

Skammtímaskuldir minnka

Þá hafa skuldir heimila minnkað á sama tíma. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs minnkuðu skuldir heimilanna um 1,75% og er það fjórði ársfjórðungurinn í röð sem skuldir heimila lækka. Samkvæmt gögnum seðlabankans munar þar helst um minnkandi húsnæðislán auk þess sem skammtímaskuldir, þá helst kreditkortaskuldir, hafa snarminnkað síðustu fjóra ársfjórðunga. *

Á sama tíma hækkuðu skuldir hins opinbera um 28,25% á öðrum ársfjórðungi en gert er ráð fyrir 1.600 milljarða dala fjárlagahalla á þessu ári.

* Rétt er að hafa í huga að Bandaríkjamenn nota kreditkort með svipuðum hætti og Íslendingar nota yfirdráttarlán. Sótt er um ákveðna heimild og síðan samið við kreditkortafyrirtækið um afborganir af því sem eytt hefur verið. Þá eru hin svokölluð veltukort mjög algeng vestanhafs.