Eftir að hafa verið starfrækt í heila öld og hafa nú farið í gegnum 10 mánaða fjárhagslega endurskipulagningu virðist ekkert ætla að koma í veg fyrir gjaldþrot bandaríska bílarisans General Motors.

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Reuters fréttastofunnar um málefni félagsins en fréttastofan hefur eftir þeim sem þekkja til mála félagsins að General Motors (GM) muni ekki ná að standast kröfur bandarískra yfirvalda um frekari neyðarlán.

Þann 1. júní n.k. rennur úr frestur GM til að sýna yfirvöldum fram á að félagið geti, með aðstoð ríkisins, starfað áfram með eðlilegum hætti þannig að gerð verði raunhæf áætlun um endurgreiðslu neyðarlánanna. Skuldir félagsins nema nú um 27 milljörðum Bandaríkjadala en stjórnendur félagsins vinna nú hörðum höndum að því að semja við kröfuhafa um frestun og greiðslustöðvun lánasamninga. Félagið hefur þegar lýst því yfir að semja þurfi um minnst 90% skuldanna ef halda á rekstrinum áfram.

Viðmælendur Reuters telja þó að tími félagsins sé útrunninn og farið verði fram á gjaldþrotaskipti í næsta mánuði.

„Ég held að hjá því verði ekki komist,“ segir Erich Merkle greiningaraðili sem hefur sérhæft sig í bílaiðnaðinum.

Óvíst með vilja kröfuhafa

Viðmælendur Reuters eru sammála um að helsta mein GM sé að félagið hafi ekki í tímanna rás sinnt hefðbundinni þróun á bílamörkuðum, meðal annars með því að framleiða sparneytna bíla líkt og Toyota og Honda hafa gert. Það hefur leitt til þess að sala félagsins hafi dvínað verulega síðustu ár.

Það er þó ekki útilokað að félagið starfi áfram, þó ekki verði það í núverandi mynd. Þeir kröfuhafar sem tjáð sig hafa um málið segja mikil verðmæti fólgin í félaginu og því er talið líkleg að einhverjir þeirra vilji halda áfram rekstrinum undir nýju félagi þó seglin verði verulega dregin saman.

Þá má ekki gleyma því að bandaríska fjármálaráðuneytið veitti GM 15,4 milljarða dala neyðarlán um síðustu áramót og það má teljast ólíklegt að bandarísk yfirvöld vilji horfa á eftir því fé. Því gæti það farið svo að bandaríska ríkið haldi á allt að 40 – 45% hlut í félaginu innan skamms.

Annar bandarískur bílarisi, Chrysler, hefur þegar lýst yfir gjaldþroti og þó svo að Chrysler sé mun minna félag en GM er þar  um að ræða sjötta stærsta gjaldþrot bandarísks fyrirtækis.

Munu gjaldþrotadómstólar veita svigrúm til að koma eignum í verð?

Greiningaraðilar vestanhafs virðast líta á gjaldþrot Chrysler sem skólabókadæmi fyrir mögulegt gjaldþrot GM. Þannig fékk Chrysler nýlega heimild gjaldþrotadómstóls (í Bandaríkjunum er sérstakir dómsstólar sem sinna gjaldþrotum fyrirtækja) til að reyna að koma eignum félagsins í verð með mögulegri sameiningu, eða sölu, til ítalska bílaframleiðandans Fiat.

Þannig má telja líklegt að þó svo að GM lýsi yfir gjaldþroti veiti dómsstólar vestanhafs félaginu ákveðið svigrúm, í sátt við kröfuhafa, til að koma eignum í verð og lágmarka þannig þann skaða sem gæti orðið með gjaldþroti og hruni félagsins.

Fritz Henderson, sem nýlega tók við forstjórastól GM eftir að Rick Wagoner, sem þá hafði verið forstjóri í um 30 ár var hrakinn úr starfi af ríkisstjórn Barack Obama, sagði við fjölmiðla í gær ef félagið færi í þrot gæti gjaldþrotaferlið tekið innan við 60 daga.

Það má þó ekki gleyma því að Chrysler var með Fiat á hliðarlínunni, tilbúið til að taka yfir hluta af eignum félagsins. Þó margir vilji koma mögulegu þrotabúi GM í verð er þó óvíst hvort einhver sé tilbúinn að leggja fram fé til að taka yfir eignirnar – og jafnvel spurning hvort einhver hafi slíkt fé milli handanna að sögn viðmælenda Reuters.

Gengi hlutabréfa í GM hefur lækkað um 94% síðustu 12 mánuði og er nú 1,18 dalir á hvern hlut. Hvað sem framhaldið ber í skauti sér er ljóst að staða félagsins er mjög slæm og hvort sem er með eða án frekari aðstoðar bandarískra yfirvalda bíður mikil áskorun þeirra sem kunna að fara með hlut félagsins á næstu misserum – hverjir svo sem það verða.